Sauli Niinistö Finnlandsforseti hefur tilkynnt að hann sækist eftir endurkjöri í forsetakosningunum sem fram fara í Finnlandi í lok janúar á næsta ári.
Niinistö hyggst þó ekki bjóða sig aftur fram sem fulltrúi Þjóðarbandalagsins, en Niinistö sat áður á þingi fyrir flokkinn. Hann hyggst þess í stað safna þeirra undirskrifta sem þarf til að bjóða sig fram í gegnum sérstakt kosningafélag (f. valitsijayhdistys, s. valmansförening).
Þrír stjórnmálaflokkar hafa þegar tilkynnt um forsetaframbjóðendur sína. Þingmaðurinn Matti Vanhanen verður frambjóðandi Miðflokks Juha Sipilä forsætisráðherra. Þá verður þingmaðurinn Pekka Haavisto frambjóðandi Græningja og Evrópuþingmaðurinn Merja Kyllönen frambjóðandi Vinstrisambandsins.
Fyrri umferð forsetakosninganna fer fram í lok janúar á næsta ári. Nái enginn frambjóðandi hreinum meirihluta verður haldin önnur umferð tveimur vikum síðar.
Niinistö tók við forsetaembættinu í Finnlandi árið 2012. Hann hafði áður gegnt embætti fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra og forseta finnska þingsins.
Niinistö sækist eftir endurkjöri
Atli Ísleifsson skrifar
