Enski boltinn

Lánaði liðsfélaganum rúma milljón á meðan hann sat í fangelsi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mariappa, til vinstri, og Deeney eru góðir félagar.
Mariappa, til vinstri, og Deeney eru góðir félagar. Vísir/Getty
Adrian Mariappa, leikmaður Watford, segir að það hafi verið sjálfsagt mál að veita liðsfélaga sínum, Troy Deeney, fjárhagsaðstoð á erfiðum tímum.

Deeney sat í fangelsi í þrjá mánuði fyrir dóm sem hann fékk fyrir líkamsárás árið 2012. Á meðan hann sat inni greiddi félagið honum ekki laun og ákvað Mariappa því að lána honum tíu þúsund pund til að framfleyta kærustu hans og barni þeirra, um 1,4 milljónir króna samkvæmt núgildandi gengi.

„Ég er viss um að hann hefði gert það sama fyrir mig,“ sagði Mariappa í viðtali sem birtist við hann á heimasíðu Watford.

„Þetta voru erfiðir tímar fyrir hann. Ég sendi honum bréf og talaði við hann nokkrum sinnum. Þetta er eitthvað sem þú gerir fyrir fólkið sem þér þykir vænt um,“ sagði hann enn fremur.

Mariappa fór frá Watford, uppeldisfélagi sínu, árið 2012 en sneri aftur árið 2016. Deeney hefur verið á mála hjá Watford síðan 2010.

Sjálfur segir Deeney að fangelsisvistin hafi gert honum gott, þrátt fyrir allt, enda hafi hann endurskoðað líf sitt vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×