Erlent

„Dularfullt ljós á himni“ reyndist eldflaug SpaceX

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Geimskot SpaceX þótti minna um margt á innrás geimvera, eins og slíkar árásir eru gjarnan túlkaðar í bíómyndum.
Geimskot SpaceX þótti minna um margt á innrás geimvera, eins og slíkar árásir eru gjarnan túlkaðar í bíómyndum. Vísir/EPA
Eldflaug frá bandaríska fyrirtækinu SpaceX vakti athygli og furðu íbúa Kaliforníu-ríkis í gær. Flauginni var skotið á loft síðdegis og myndaði sérstaklega áberandi rák á himni.

Ringlaðir áhorfendur hringdu í fréttastofur vegna eldflaugarskotsins og spurðust fyrir um það sem fyrir augu bar. Þá stigu ökumenn út úr bifreiðum sínum á hraðbrautum í Los Angeles til þess að virða fyrir sér herlegheitin. Slökkviliðið borgarinnar neyddist enn fremur til að senda út tilkynningu þess efnis að „dularfulla ljósið á himninum“ væri á ábyrgð SpaceX.

Umrætt skot SpaceX er það átjánda, og jafnframt það síðasta, á árinu. Um borð í eldflauginni voru tíu gervihnettir sem koma átti á sporbaug um jörðu.

Geimskot SpaceX þann 15. desember síðastliðinn var sögulegt en það var í fyrsta sinn sem fyrirtækið endurnýtti bæði eldflaugina sem og geimfarið, sem skotið var á loft.

Þá höfðu nokkrir Twitter-notendur á orði að eldflaugaskotið hefði minnt um margt á geimveruinnrásir eins og þær eru gjarnan túlkaðar í bíómyndum. Eigandi fyrirtækisins, athafnamaðurinn Elon Musk, tók þátt í gríninu og sagði geimverur „svo sannarlega“ hafa verið á ferð í gærkvöldi.


Tengdar fréttir

Bein útsending: Sjáðu sögulegt geimskot Space X

Bandaríska geimfyrirtækið Space X stefnir að því að skjóta á loft eldflaug frá Cape Canaveral í Bandaríkjunum innan tíðar. Stefnt er að því að skjóta flauginni á loft um klukkan hálf fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×