Erlent

Páfi nefndi Róhingja loks á nafn og hitti 16 flóttamenn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Páfi hitti Róhingja í gær.
Páfi hitti Róhingja í gær. Nordicphotos/AFP

Frans páfi hitti sextán manna hóp flóttamanna úr þjóðflokki Róhingja í Bangladess í gær. Nefndi páfi þar loks nafn þjóðflokksins eftir að hafa sleppt því á meðan hann var í Mjanmar, þaðan sem Róhingjar hafa flúið í hundraða þúsunda tali frá því í ágúst.

Á fundi sínum með Róhingjum í gær sagði páfi: „Í nafni allra þeirra sem hafa ofsótt ykkur, sært ykkur, vil ég biðjast fyrirgefningar. Ég biðla til ykkar stóru hjartna um að veita okkur þá fyrirgefningu sem við biðjum um.“

„Nærvera Guðs hér í dag kallast einnig Róhingjar,“ sagði páfi enn fremur. Ummælin voru ekki hluti af ræðu páfans heldur ákvað hann að segja þau á staðnum.

Óháð félagasamtök, meðan annars mannréttindabaráttusamtökin Amnesty International, gagnrýndu páfa harðlega fyrir að nota heitið ekki á meðan hann var í Mjanmar og hafa meðal annars sagt að þannig hefði Frans getað tekið einarða afstöðu gegn þeim ofsóknum sem herinn þar í landi og almennir borgarar beita Róhingja. Bæði Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar hafa talað um þjóðernishreinsanir í því samhengi.

Kaþólska kirkjan í Mjanmar, en 0,2 prósent Mjanmara eru meðlimir hennar, réð páfa frá því að nota heitið enda hafnar ríkisstjórn Mjanmar heitinu alfarið. Litið er á Róhingja sem ólöglega innflytjendur frá Bangladess og þeir kallaðir Bengalar, burtséð frá því að þeir hafi margir hverjir fæðst í Mjanmar.

Charles Bo kardináli sagði páfa að ef hann myndi nefna Róhingja eða fjalla ítarlega um þjáningar þeirra í Rakhine-héraði hætti hann ekki bara á að kynda undir átökunum heldur einnig á að stefna hinum kristna minnihluta í landinu í hættu. 


Tengdar fréttir

Frans páfi forðaðist að nefna Róhingja

Frans páfi fundaði með leiðtoga Mjanmar í gær og hélt ræðu þar sem hann nefndi hinn ofsótta þjóðflokk Róhingja ekki á nafn. Á hann hafði verið skorað að nota nafnið en yfirvöld þar í landi segja Róhingja ólöglega innflytjendur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×