Enski boltinn

„Engin spurning um að Gylfi er einn besti miðjumaður úrvalsdeildarinnar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er aðeins kominn með tvö mörk fyrir Everton í deildinni.
Gylfi Þór Sigurðsson er aðeins kominn með tvö mörk fyrir Everton í deildinni. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson hefur aðeins skorað tvö mörk fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni eftir að hann var keyptur þangað fyrir 45 milljónir punda í sumar. Þessi mörk skoraði hann aftur á móti bæði í sömu vikunni og virðist sem svo að íslenski landsliðsmaðurinn sé mættur til starfa hjá bláliðum Liverpool-borgar.

Þetta er inntak greinar enska blaðamannsins Tom Cavilla á vef Liverpool Echo en hann spyr sig í fyrirsögninni hvort stuðningsmenn Everton séu nú að fara að sjá hinn raunverulega Gylfa Þór Sigurðsson.

„Íslenski landsliðsmaðurinn kostaði Everton metfé en hefur ekki staðið undir væntingum en nú líta hlutirnir betur út,“ skrifar Cavilla.

„Það er engin spurning um að Gylfi er einn besti miðju- og sendingamaðurinn í deildinni og Everton gerði vel með að fá svona leikmann. Tölur hans í deildinni undanfarin ár tala fyrir sig sjálfar.“

„Þessi 28 ára gamli leikmaður var þriðji stoðsendingahæstur á síðustu leiktíð á eftir aðeins Christian Eriksen og Kevin De Bruyne. Þá er Gylfi aukaspyrnusérfræðingur og gaf fleiri stoðsendingar úr föstum leikatriðum en nokkur annar leikmaður á síðustu leiktíð,“ skrifar Cavilla.

Hann bendir svo á að Swansea saknar Gylfa gríðarlega mikið en án hans situr liðið nú á botni ensku úrvalsdeildarinnar og er aðeins með níu stig eftir fimmtán umferðir.

Alla greinina má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×