Hershöfðinginn fyrrverandi Ratko Mladic var í gær dæmdur af Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum í málefnum fyrrum Júgóslavíu fyrir aðild sína að verstu ódæðum stríðsins. Þar á meðal fjöldamorðsins í Srebrenica þar sem um átta þúsund menn og drengir voru myrtir og komið fyrir í fjöldagröfum.
Útskýringarmyndband BBC um fjöldamorðið sem birt var 2015.
Samkvæmt upprifjun Business Insider hafði fjöldamorðið verið skipulagt fyrir fram. Serbar höfðu tekið fjölmörg þorp múslima á svæðinu umhverfis Srebrenica og rekið fólk þaðan til bæjarins. Þar að auki höfðu þeir skotið á svæðið úr sprengjuvörpum.
Ratko Mladic ræðir hér að neðan við flóttamenn og fjölmiðla í Srebrenica degi áður en morðin byrjuðu. Þá sagði hann að fólkið yrði flutt á brott og þau væru örugg. Konur og börn voru flutt af svæðinu en um átta þúsund menn og drengir urðu eftir svo þeir gætu verið „yfirheyrðir“.
Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar komst dómstóll í Hollandi að þeirri niðurstöðu á árinu að hollenska ríkið bæri að hluta til ábyrgð á dauða 350 manna sem höfðu leitað skjóls hjá friðargæsluliðunum. Þeir voru afhentir hermönnum Mladic eftir að þeir höfðu tekið 30 friðargæsluliða í gíslingu.
Ríkinu var gert að greiða fjölskyldum mannanna bætur.
AFP segir fjölmargar heimildir fyrir því að ríkisstjórn Hollands á þeim tíma hafi tekið að sér friðargæsluverkefnið eingöngu á grundvelli hugsjóna og án þess að skoða hvort að verkefnið væri í raun mögulegt.

„Þetta var óraunhæft verkefni við ómögulegar aðstæður,“ sagði hún.
Einn hermaður Dutchbat sem AFP ræddi við fyrir tveimur árum segist sjá verulega eftir loforði sem hann gaf.
„Ég var 21 árs og kunni tungumálið ekki vel,“ sagði Edo van den Berg. „Ég reyndi samt að róa íbúa með því að segja: Við erum hér, þetta verður allt í lagi. Þetta fór ekki vel. Ég hefði aldrei átt að lofa það að allt yrði í lagi.“