Íslenski boltinn

Starf yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ verður auglýst á næsta ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þótt níu mánuðir séu síðan Guðni Bergsson tók við sem formaður KSÍ bólar ekkert á yfirmanni knattspyrnumála. Helsta kosningaloforð Guðna var að koma á slíku embætti hjá KSÍ.

„Það hefur verið rýnt í þetta hérna innanhúss og ég líka, ásamt góðu fólki, fyrir utan þessa skrifstofu, úti í knattspyrnusamfélaginu. Ég held að við séum komin með mjög gott upplegg og klárt plan hvernig þetta gæti virkað fyrir KSÍ og hreyfinguna í heild sinni,“ sagði Guðni í samtali við Hjört Hjartarson í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.

Ætti vinnan við þessa stöðu ekki að vera komin lengra?

„Nei, ég held ekki. Það er mikilvægt að vinna þetta vel og fara vel yfir þetta. Við erum komin með lítinn hóp sem myndi vinna að þessum markmiðum og stilla þessu upp sem viðkomandi myndi þá taka við þegar að því kemur,“ svaraði Guðni.

Hvenær verður starf yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ auglýst?

„Ég myndi halda að það yrði einhvern tímann á næsta ári,“ sagði Guðni.

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×