Erlent

Trump um eldflaugaskot N-Kóreu: „Við sjáum um þetta“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump virðist ekki hafa miklar áhyggjur af N-Kóreu.
Donald Trump virðist ekki hafa miklar áhyggjur af N-Kóreu. Vísir/Getty
„Við sjáum um þetta,“ sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, við blaðamenn í Hvíta Húsinu í dag eftir að Norður-Kórea skaut á loft eldflaug fyrr í dag. Þetta var fyrsta eldflaugaskot Norður-Kóreu í rúma tvo mánuði.

„Þetta er staða sem við munum ráða fram úr,“ bætti Trump við. Eldflauginni var skotið á loft frá Pyongan-héraði. Eldflaugin flaug í tæplega þúsund kílómetra og lenti hún í sjónum undan ströndum Japan.

Í ágúst og september skaut norður-kóreski herinn upp tveimur eldflaugum með skömmu millibili. Var eldflaugunum skotið yfir Japan, aðeins vikum eftir að herinn sprengdi vetnissprengju, að því er talið er.

Markmið yfirvalda í Norður-Kóreu er að þróa eldflaug sem gæti náð að meginlandi Bandaríkjanna en Washington, höfuðborg Bandaríkanna er í um ellefu þúsund kílómetra fjarlægð frá Norður-Kóreu.

David Wright, sérfræðingur í öryggisfræðum, segir í samtali við Washington Post að hefði þessari tilteknu eldflaug verið skotið eftir ferli sem hefði miðað að því að hámarka drægni hennar hefði hún getað náð til Washington.

Þessi eldflaug hafi því verið langdrægnari en fyrri eldflaugar sem yfirvöld í Norður-Kóreu hafa skotið á loft. Líklegt er þó talið að sambærileg fullhlaðin eldflaug hefði ekki slíka drægni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×