Erlent

Efasemdir þrátt fyrir hátíðlegar yfirlýsingar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hin reynda Ri Chun Hee flutti fregnir af eldflaugaskotinu í gær. Henni er yfirleitt gert að flytja mikilvægar tilkynningar fyrir hönd stjórnvalda í Pjongjang.
Hin reynda Ri Chun Hee flutti fregnir af eldflaugaskotinu í gær. Henni er yfirleitt gert að flytja mikilvægar tilkynningar fyrir hönd stjórnvalda í Pjongjang. KCNA
Norður-Kóresk stjórnvöld fagna því sem þau segja hafa verið fullkomið tilraunaskot á nýrri tegund eldflauga, eldflauga sem geta hæft hvern einasta fermetra í Bandaríkjunum. Sérfræðingar taka þessum yfirlýsingum þó með fyrirvara enda hafi flaugin ekki verið fullhlaðin og því umtalsvert léttari en flaug sem ætlað væri að valda tjóni. Þetta var fyrsta eldflaugaskot Norður-Kóreu í rúma tvo mánuði.

Ríkisjónvarp landsins segir Pjongjang nú loksins hafa uppfyllt markmið sitt um að verða fullgilt kjarnorkuveldi. Eldflauginni var skotið á loft í gærkvöldi og telja sérfræðingar að þar hafi verið á ferðinni öflugasta eldflaug sem Norður-Kórea hefur skotið á loft.

Hún lent í sjónum undan ströndum Japans en hafði áður flogið upp í tæplega 1000 kílómetra hæð. David Wright, sérfræðingur í öryggisfræðum, segir í samtali við Washington Post að hefði þessari tilteknu eldflaug verið skotið eftir ferli sem hefði miðað að því að hámarka drægni hennar hefði hún getað náð til Washington.

Sjá einnig: Trump um eldflaugaskot N-Kóreu: „Við sjáum um þetta“

Norður-Kóreskir ríkismiðlar fjölluðu ítarlega um skotið í gær og segja það hafa flogið ívið hærra en sérfræðingar annarra miðla hafa fullyrt. Þannig hafi flaugin raunverulega náð næstum 4,5 kílómetra hæð og flogið 950 kílómetra á 53 mínútum.

Stjórnvöld í Pjongjang hafa áður haldið því fram að flaugar þeirra geti náð til Bandaríkjanna en þetta er í fyrsta sinn sem þau fullyrða það í tilfelli þessarar nýju gerðar flauga, sem bera heitið Hwasong-15.

Líklegt er þó talið, af öðrum en norður-kóreskum ríkismiðlum, að sambærileg fullhlaðin eldflaug hefði ekki slíka drægni. Þrátt fyrir ítrekaðar eldflaugatilraunir Norður-Kóreubúa á þessu ári eiga vísindamenn ríkisins enn eftir að sannfæra alþjóðasamfélagið um að þeir búi yfir tækninni til að flytja kjarnaodda með eldflaugunum. 


Tengdar fréttir

Trump um eldflaugaskot N-Kóreu: „Við sjáum um þetta“

"Við sjáum um þetta,“ sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, við blaðamenn í Hvíta Húsinu í dag eftir að Norður-Kórea skaut á loft eldflaug fyrr í dag. Þetta var fyrsta eldflaugaskot Norður-Kóreu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×