Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkjastjórn íhugi nú að beita einstaklinga í Búrma refsiaðgerðum vegna ofsókna gegn rohingjum í landinu. Hundruð þúsunda þeirra hafa flúið yfir landamærin til Bangladess en Tillerson vill sjálfstæða rannsókn á mannúðarástandinu þar.
Á blaðamannafundi með Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma, í dag sagði Tillerson að Bandaríkjastjórn hefði þungar áhyggjur af trúverðugum frásögnum af voðaverkum öryggissveita Búrma gegn rohingjum. Mögulegt væri að Bandaríkin beittu einstaklinga sem bera ábyrgð á þeim refsiaðgerðum. Hann útilokaði hins vegar að beita efnahagsþvingunum gegn landinu sjálfu.
„Ef við höfum trúverðugar upplýsingar um að ákveðnir einstaklingar beri ábyrgð á á vissum gjörðum sem okkur finnst óásættanlegar þá gætu refsiaðgerðir sem beinast að einstaklingum vel verið viðeigandi,“ sagði Tillerson, að sögn AP-fréttastofunnar.
Stjórnarher Búrma hefur verið sakaður um þjóðarmorð á rohingjum í Rakhine-héraði í norðurhluta landsins. Um 600.000 rohingjar hafa flúið til Bangladess síðustu mánuðina. Því neita forsvarsmenn hersins algerlega.
Bandaríkin íhuga refsiaðgerðir gegn einstaklingum í Búrma

Tengdar fréttir

Her Búrma segist saklaus
Herinn, sem hefur verið sakaður um umfangsmikil ódæði og þjóðernishreinsanir, segir að „hryðjuverkamenn“ meðal rohingjafólksins hafi brennt heilu þorpin og skipað þjóðflokknum að yfirgefa heimili sín og flýja til annars lands.

Glæpir gegn mannkyni í Rakine-héraði
Mannréttindasamtökin Amnesty International birtu nýja skýrslu í dag um ástandið í Myanmar.

Suu Kui heimsækir Rakhine-hérað
Leiðtogi Mjanmar heimsækir nú Rakhine-hérað í fyrsta sinn síðan átök brutust út á svæðinu í lok ágúst síðastliðinn.