Erlent

Sádar saka Írani um berar árásir

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn úr bandalagi Sáda í Jemen.
Hermenn úr bandalagi Sáda í Jemen. Vísir/AFP
Krúnuprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, segir Íran hafa gert árásir gegn landi sínu með því að útvega uppreisnarmönnum í Jemen eldflaugar. Í raun væri hægt að líta á það sem stríðsyfirlýsingu. Sádar skutu eldflaug niður á laugardaginn sem skotið hafði verið frá Jemen og á Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu.

Mohammed bin Salman segir að meðlimir Hezbollah hafi skotið eldflauginni frá yfirráðasvæði Húta í Jemen. Eldflaugin stefndi á flugvöll en var skotin niður skömmu áður en hún lenti. Engan sakaði.

Íranar neita því að hafa veitt uppreisnarmönnum og þar á meðal Hútum, sem berjast gegn ríkisstjórn Jemen sem Sádar styðja, vopn og eldflaugar. Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, sagði í gær að stríð Sádi-Arabíu og hrottaháttur ógnaði Mið-Austurlöndum.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að líklegast sé eldflaugaskotið stríðsglæpur þar sem árás hafi verið gerð á borgaralegan flugvöll.

Eftir eldflaugaskotið lokuðu Sádar og bandamenn þeirra öllum landamærastöðvum, flugvöllum og höfnum Jemen. Sádar sögðu að hjálpargögnum yrði hleypt inn í landið, en Sameinuðu þjóðirnar segja að tvær sendingar hafi verið stöðvaðar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×