Erlent

Leiðtogi Katalóna flýr land

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Carles Puigdemont er flúinn land.
Carles Puigdemont er flúinn land. Vísir/Getty
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu er flúinn til Belgíu eftir að hafa verið ákærður fyrir uppreisn af spænskum saksóknurum. Talið er líklegt að hann muni sækja um hæli þar.

Puigdemont var, ásamt öðrum leiðtogum héraðsstjórnar Katalóníu sem stóðu að sjálfstæðisyfirlýsingu héraðsins á föstudag, ákærður fyrir uppreisn, uppreisnaráróður og fjárdrátt. Ákærurnar fara fyrir dómara sem munu meta þær.

Leiðtoginn fyrrverandi hefur ráðið sér lögfræðing í Belgiu en hann staðfesti að Puigdemont væri staddur í Brussel, höfuðborg Belgíu.

„Ég er lögfræðingurinn hans ef hann þarf á því að halda,“ sagði Paul Bakaert, lögfræðingur Puigdemont. „Í augnablikinu er ég þó ekki að vinna að neinu sérstöku fyrir hann.“

BBC greinir frá því að sögusagnir hafi verið uppi um að Puigdemont ætli sér að sækja um hæli í Belgíu. Innflytjendaráðherra Belgíu sagði um helgina að slíkt gæti komið til greina.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Puigdemont hafi rætt við leiðtoga stjórmálamenn úr röðum Flæmingja sem hafa talað fyrir því að kljúga sig frá Belgíu. Þá segja spænskir fjölmiðlar einnig að ásamt Puigdemont séu fimm ráðherrar fyrrverandi héraðsstjórnar Katalóníu með honum í Belgíu.

Landsstjórn Spánar ákvað að svipta Katalóníu sjálfræði í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar héraðsþingins á föstudag. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, leysti upp héraðsþingið og boðaði til kosninga í Katalóníu 21. desember.


Tengdar fréttir

Ákæra leiðtoga Katalóna fyrir uppreisn

Spænskir saksóknarar hafa tilkynnt um ákærur á hendur leiðtogum héraðsstjórnar Katalóníu sem stóðu að sjálfstæðisyfirlýsingu héraðsins á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×