Erlent

Katalónska þingið samþykkir að lýsa yfir sjálfstæði

Atli Ísleifsson skrifar
Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, skilar atkvæði sínu.
Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, skilar atkvæði sínu. Vísir/AFP
Katalónska þingið hefur samþykkt ályktun um að Katalónía lýsi yfir sjálfstæði.

Þetta er samþykkt á sama tíma og öldungadeild Spánarþings í Madríd ræði hvort að Spánarstjórn eigi að taka yfir stjórn héraðsins.

Í leynilegri kosningu á katalónska þinginu greiddu sjötíu þingmenn með tillögunni, tíu gegn og tveir skiluðu auðu. 

Í frétt Reuters kemur fram að líklegt þyki að stjórnlagadómstóll Spánar dæmi atkvæðagreiðsluna ólöglega. El Pais greinir frá því að ríkisstjórn Spánar muni koma saman til neyðarfundar nú síðdegis vegna málsins.

Þingmenn Sósíalistaflokksins, Þjóðarflokksins (PP) og Ciudadanos yfirgáfu þingsalinn í mótmælaskyni áður en atkvæðagreiðslan hófst. Alls eiga 135 þingmenn sæti í katalónska héraðsþinginu.

Þegar búið var að lesa upp atkvæði þingmannanna stóðu þeir þingmenn sem eftir voru í salnum upp og sungu þjóðsöng Katalóníu, „Els segadors“ og hrópuðu svo „Visca Catalunya!“ – Lifi Katalónía!

Spánarstjórn taki yfir stjórn Katalóníu

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hvatti í morgun öldungadeildarþingmenn Spánarþings til að samþykkja tillögu um að Spánarstjórn taki yfir stjórn Katalónu. Í ræðu sinni sagði Rajoy nauðsynlegt að koma Carles Puigdemont, forseta héraðsstjórnar Katalóníu, varaforsetanum og öllum ráðherrum héraðsstjórnarinnar frá völdum. Nauðsynlegt væri að koma á lögum, lýðræði og stöðugleika í Katalóníu á nýjan leik.

Mikil spenna hefur verið í samskiptum héraðsstjórnar Katalóníu og Spánarstjórnar í Madríd eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í upphafi mánaðar þar sem mikill meirihluti þeirra sem þátt tóku greiddu atkvæði með því að lýsa yfir sjálfstæði. Kosningaþátttakan var 43 prósent. Stjórnlagadómstóll Spánar hafi dæmt atkvæðagreiðsluna ógilda.

Öldungadeild Spánarþings á enn eftir að greiða atkvæði um hvort beita skuli 155. Grein sæpnsku stjórnarskrárinnar sem myndi afturkalla sjálfstjórn héraðsins. Stjórn fjármála, lögreglu og fjölmiðla héraðsins myndi þá falla í skaut Spánarstjórnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×