Erlent

Hvetur þingmenn til að samþykkja beina stjórn yfir Katalóníu

Atli Ísleifsson skrifar
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hélt ræðu í sal öldungadeildar Spánarþings í morgun.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hélt ræðu í sal öldungadeildar Spánarþings í morgun. Vísir/AFP
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur hvatt öldungadeildarþingmenn Spánarþings til að samþykkja tillögu um að Spánarstjórn taki yfir stjórn Katalónu.

Í ræðu sinni í sal öldungadeildarinnar í morgun sagði Rajoy nauðsynlegt að koma Carles Puigdemont, forseta héraðsstjórnar Katalóníu, varaforsetanum og öllum ráðherrum héraðsstjórnarinnar frá völdum.

Þingmenn klöppuðu fyrir Rajoy að ræðu lokinni, en flokkur forsætisráðherrans, Partido Popular, er þar í meirihluta.

Umdeild þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Katalóníu fór fram í upphafi mánaðar þar sem meirihluti þeirra sem þátt tóku greiddu atkvæði með sjálfstæði. Sambandssinnar sniðgengu langflestir atkvæðagreiðsluna, sem Spánarstjórn hafi úrskurðað ólöglega. Níutíu prósent þeirra sem kusu greiddu atkvæði með því að lýsa yfir sjálfstæði, en þátttakan var einungis 43 prósent.

Rajoy sagði í ræðu sinni að þörf væri á sérstökum aðgerðum vegna stöðunnar sem upp væri komin í Katalóníu – ekki væri neitt annað í boði – og nauðsynlegt væri að koma á lögum, lýðræði og stöðugleika í Katalóníu á nýjan leik.

Hann sakaði héraðsstjórnina um að sundra fjölskyldum og skaða samfélagið. Íbúar Katalóníu hafi þegar þjáðst of mikið vegna málsins og óvissan hafi hrakið fjölda fyrirtækja á brott.

Rajoy sagði að ekki þyrfti að bjarga Katalónum frá því sem hafi verið kallað sem „spænsk heimsvaldastefna“ heldur frá minnihlutahópi sem hafi krýnt sjálfa sig eigendur Katalóníu á mjög óumburðarlyndan hátt.

Þingmenn öldungadeildar Spánarþings munu síðar í dag greiða atkvæði um það hvort beita eigi 155. grein stjórnarskrár landsins sem myndi afturkalla sjálfstjórn Katalóníu. Stjórn fjármála, lögreglu og fjölmiðla héraðsins myndi þá falla í skaut Spánarstjórnar.


Tengdar fréttir

Ætlar ekki að boða til kosninga

Varaforseti Katalóníu segir að það eina í stöðunni fyrir héraðið vera að lýsa yfir sjálfstæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×