Erlent

Segir viðræður við Norður-Kóreu vera tímaeyðslu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Trump hefur ítrekað kallað Kim Jong Un litla eldflaugamanninn.
Trump hefur ítrekað kallað Kim Jong Un litla eldflaugamanninn. Vísir/AFP
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sagt Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að hann sé að eyða tíma sínum með að reyna að semja við „litla eldflugamanninn.“ Trump lét ummælin falla á Twitter síðu sinni í dag.

„Ég sagði Rex Tillerson, yndislega utanríkisráðherranum okkar, að hann sé að eyða tíma sínum með því að reyna að semja við litla eldflaugamanninn,“ sagði forsetinn.

Áfram hélt Trump og sagði Rex að spara kraftana. „Við munum gera það sem þarf að gera.“

Tillerson sagði í gær við blaðamenn í Kína að ráðamenn í Bandaríkjunum hefðu nokkrar leiðir til að koma skilaboðum áleiðis til yfirvalda í Norður-Kóreu. Þá sagði hann einnig að ekki hefði gengið vel að ræða við yfirvöld í landinu.

Yfirvöld í Kína tilkynntu í síðustu viku að öllum fyrirtækjum Norður-Kóreu í landinu verði gert að loka starfsstöðvum sínum fyrir áramótin. Þá tilkynnti Kína einnig að dregið yrði úr sölu eldsneytis til Norður-Kóreu og að Kína hætti kaupum á kolum og vefnaðarvörum frá landinu. 

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði með forseta Kína, Xi Jinping, í gær.Vísir/AFP
Kína hefur um árabil verið helsta viðskiptaríki Norður-Kóreu. Talið er að um 90 prósent af tekjum Norður-Kóreu hafi komið til vegna viðskipta þeirra við Kína. Refsiaðgerðirnar munu því hafa mikil áhrif á Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×