Erlent

Starfsmannastjóri varaforsetans vill „hreinsun“ á andstæðingum Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Nick Ayers (t.v.) með Kellyanne Conway (f.m.) í Trump-turninum í desember.
Nick Ayers (t.v.) með Kellyanne Conway (f.m.) í Trump-turninum í desember. Vísir/AFP
Hreinsa ætti burt þingmenn Repúblikanaflokksins sem fylkja sér ekki að baki Donald Trump forseta. Þetta sagði starfsmannastjóri Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, við hóp auðugra bakhjarla flokksins. Hvatti hann þá til að vinna gegn andstæðingum forsetans.

Bandaríska blaðið Politico greinir frá ummælum Nick Ayers, starfsmannastjóra varaforsetans. Þau lét hann falla á lokaðri samkomu á vegum landsnefndar Repúblikanaflokksins í morgun.

Hótaði hann því að repúblikanar sem styðja ekki stefnumál Trump í þinginu verði „gjörsigraðir“ í þingkosningum á næsta ári. Lýsti hann ótta við að repúblikanar gætu beðið afhroð í kosningunum ef þeim miðar ekkert með stefnumál sín fyrir þær.

„Ímyndið ykkur bara möguleikana á því hvað getur gerst ef allur flokkurinn sameinast að baki honum? Ef, og þetta kann að hljóma gróft, við getum hreinsað nokkra einstaklinga burt sem heldur áfram að vinna gegn honum,“ sagði Ayers.

Koma ábyrgðinni á stefnumálunum yfir á þingið

Hann sagðist þó ekki tala í nafni Pence eða Trump. Hvatti hann styrktaraðila flokksins til að hætta að láta fé af hendi rakna og hóta því að styrkja mótframbjóðendur ef þingmennirnir komi ekki málum í gegn fyrir tiltekinn tíma.

Mikil togstreita hefur ríkt að undanförnum á milli Trump og leiðtoga repúblikana í þinginu, ekki síst í ljósi þess að þeim hefur mistekist að afnema sjúkratryggingalögin sem kennd eru við Barack Obama, fyrrverandi forseta.

Pence hefur verið talinn hafa verið maður sátta í þeim slag. Politico segir að ummæli Ayers bendi til þess að menn í Hvíta húsinu séu orðnir langþreyttir á félögum sínum í þinginu. Þá sé það að reyna að koma ábyrgðinni á því að koma lykilstefnumálum í framkvæmd yfir á þingmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×