Erlent

Oxford-háskóli fjarlægir málverk af Aung San Suu Kyi

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar.
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar. vísir/getty
Oxford-háskóli hefur fjarlægt málverk af Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma (nú Mjanmar), en verkið prýddi vegg í einni af byggingum skólans.

Ástæðan fyrir ákvörðuninni er aðgerðarleysi Aung San Suu Kyi gagnvart hörmulegri meðferð búrmískra hersins í garð Rohingja-múslima sem hafa í kjölfarið flúið í tugþúsundatali yfir landamærin til Bangladess. Afskiptaleysi Aung San Suu Kyi hefur verið harðlega gagnrýnt, meðal annars af alþjóðlegum mannréttindasamtökum. 

Sjá einnig: Tugir Rohingja hafa drukknað á flótta

Aung San Suu Kyi var nemi við Oxford-háskóla á árunum 1964 til 1967 en hún lauk þaðan bakkalársgráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði.



Hún ruddi braut lýðræðissinna í Búrma á síðari hluta níunda áratugarins og leiddi stjórnmálaflokk sinn til sigurs í þingkosningum árið 1990. Suu Kyi var undir miklum áhrifum frá hugsjónum Mahatma Gandhi, fordæmdi ofbeldi og lagði áherslu á friðsamlegar lausnir í ágreiningsmálum. 

Suu Kyi sat í stofufangelsi í fimmtán ár og hlaut á því tímabili friðarverðlaun Nóbels. 

Stúdentablað Oxford-háskóla, The Swan, greindi frá því að málverkið af Aung San Suu Kyi hefði verið tekið niður á fimmtudaginn og að fyllt hefði verið upp í skarðið með málverki eftir Yoshihiro Takada.

Að sögn Benjamin Jones, talsmanns háskólans, hefur málverkinu af Suu Kyi verið komið fyrir á öruggum stað og mun myndin eftir Takada prýða vegginn tímabundið.


Tengdar fréttir

Tugir Rohingja hafa drukknað á flótta

Að minnsta kosti 23 fórust og fjörutíu er saknað eftir að báti flóttafólks af þjóðflokki Rohingja hvolfdi við strandir Bangladess.

Frá friðarverðlaunum til þjóðernishreinsana

Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar, er sögð þegja á meðan almennir borgarar drepa Rohingja-múslima án dóms og laga. Suu Kyi er handhafi friðarverðlauna Nóbels og skora aðrir friðarverðlaunahafar á hana að binda enda á ofsóknirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×