Erlent

Suu Kyi hvött til að grípa í taumana

Kjartan Kjartansson skrifar
Suu Kyi er talin raunverulegur leiðtogi Búrma þó að að nafninu til sé hún utanríkisráðherra.
Suu Kyi er talin raunverulegur leiðtogi Búrma þó að að nafninu til sé hún utanríkisráðherra. Vísir/AFP

Sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna vegna mannréttindabrota í Búrma gagnrýnir friðarverðlaunahafa Nóbels, Aung San Suu Kyi, fyrir að halda ekki hlífiskildi yfir rohingjafólki. Tugir þúsunda þeirra hafa flúið ofsóknir í landinu.

Her Búrma hefur beitt fólk sem tilheyrir rohingjaættbálkinum hörku eftir árásir uppreisnarmanna úr þeirra röðum á lögreglustöðvar nýlega. Sögur fara af því að hermenn brenni þorp og ráðist á óbreytta borgara.

Suu Kyi er utanríkisráðherra Búrma en lög landsins banna henni að gegna embætti forseta. Hún er engu að síður talin raunverulegur þjóðarleiðtogi Búrma.

Herinn heldur enn verulegum völdum

Yanghee Lee, sendifulltrúi SÞ, gagnrýnir Suu Kyi fyrir aðgerðaleysi og segir ástandið í Rakhine-héraði grafalvarlegt og að hún verði að grípa í taumana, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

SÞ áætla að 87.000 rohingjar hafi nú flúið yfir landamærin til Bangaldess frá því að herferð hersins hófst.

„Raunverulegi leiðtoginn verður að grípa inn í, við því búumst við af öllum ríkisstjórnum, að verja alla innan lögsögu þeirra,“ sagði Lee.

Herinn réði ríkjum í Búrma í áratugi en hann heldur enn umtalsverðum völdum í landinu. Þannig heldur hann fjórðungi sæta á þjóðþinginu.

Um milljón rohingja búa í Búrma en meirihluti þeirra er múslimar. Ættbálkurinn hefur sætt ofsóknum í Búrma.


Tengdar fréttir

Nærri 20.000 flúið á viku

Þjóðflokkurinn flýr átök í Rakhine-héraði Bangladess en átökin í héraðinu versnuðu til muna þegar Rohingya-múslimar réðust á þrjátíu lögreglustöðvar á föstudag. Yfirvöld svöruðu árásunum með hervaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×