Erlent

Ellefu sagðir hafa farist í Bandaríkjunum af völdum Irmu

Kjartan Kjartansson skrifar
Embættismenn í Florida Keys segja að meirihluti íbúðarhúsa þar sé skemmdur eða eyðilagður eftir yfirreið Irmu á sunnudagsmorgun.
Embættismenn í Florida Keys segja að meirihluti íbúðarhúsa þar sé skemmdur eða eyðilagður eftir yfirreið Irmu á sunnudagsmorgun. Vísir/EPA
Fellibylurinn Irma er nú talinn hafa valdið dauða að minnsta kosti ellefu manns í Bandaríkjunum. Milljónir manna eru enn án rafmagns í Flórída eftir eyðilegginguna sem Irma skildi eftir sig.

Reuters-fréttastofan segir að ellefu manns hafi farist í Flórída, Georgíu og Suður-Karólínu. Áður höfðu 43 farist á eyjum í Karíbahafi. Jafnvel er talið að enn fleiri hafi farist í Bandaríkjunum, sérstaklega á Keys-eyjum suðurvestur af Flórídaskaganum þar sem Irma var sem öflugust.

Eyjarnar hafa verið nánast án sambands við umheiminn frá því að fellibylurinn gekk þar á land á sunnudagsmorgun. Talið er að um tíu þúsund manns hafi ekki hlýtt skipun um að rýma eyjarnar. Varað hefur verið við mannúðarástandi þar.

Irma er nú talin hitabeltislægð og mun að líkindum fjara út í kvöld, að sögn Fellibyljamiðstöðvar Bandaríkjanna.

Meira en helmingur Flórída án rafmagns

Stormurinn hefur verið sögulegur. Alls var 6,5 milljónum íbúa Flórída skipað að yfirgefa heimili sín en það er stærsta rýming í samtímasögu Bandaríkjanna.

Rafmagni hefur slegið út til meira en helmings heimila í Flórída. Washington Post segir að íbúar sem flúðu Irmu geti mögulega ekki snúið aftur til síns heima í fleiri vikur á meðan rafmagnslínur og brak er hreinsað burt og áður en rafmagn kemst aftur á.

Í Georgíu og Suður-Karólínu hefur rafmagsleysis einnig orðið vart.


Tengdar fréttir

Óíbúðarhæft á Florida Keys næstu vikurnar

Rúmlega 6.5 milljónir heimila í Flórída, tveir þriðju hlutar allra heimila í ríkinu, eru nú án rafmagns eftir að fellibylurinn Irma gekk þar yfir um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×