Erlent

Óíbúðarhæft á Florida Keys næstu vikurnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Svona var um að litast á Florida Keys-eyjaklasanum í gær.
Svona var um að litast á Florida Keys-eyjaklasanum í gær. Vísir/Getty
Rúmlega 6.5 milljónir heimila í Flórída, tveir þriðju hlutar allra heimila í ríkinu, eru nú án rafmagns eftir að fellibylurinn Irma gekk þar yfir um helgina.

Unnið er að viðgerðum á rafmagnslínum og spennustöðvum en talið er að viðgerðirnar gætu tekið einhverjar vikur. Fjöldi hverfa og landsvæða eru enn á floti. Sautján þúsund rafvirkjar voru í startholunum alla helgina og munu þeir vinna baki brotnu næstu daga við að koma öllu aftur í samt horf samkvæmt yfirlýsingum frá stjórnvöldum í Flórída.

Sjá einnig: Milljónir heimila án rafmagns í Flórída

Vesturströnd ríkisins, sem og Florida Keys-eyjaklasinn, urðu verst úti í fellibylnum og flóðunum sem honum fylgdu. Þjóðaröryggisráðgjafi í Hvíta húsinu segir í samtali við fjölmiðla að klasinn verði ekki íbúðarhæfur næstu vikurnar. Talið er að um 10 þúsund manns hafi ákveðið að bíða storminn af sér í Florida-Keys. Irma var fjórða stigs bylur þegar hún gekk á land í ríkinu á sunnudag en styrkur hennar hefur minnkað umtalsvert. Er hún nú flokkuð sem djúp hitabeltislægð.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi rigningu í Flórída og nærliggjandi ríkjum en ekki er talin hætt á frekari flóðum eða sterkum vindhviðum. Talið er að fjórir hafi látið lífið í Flórída vegna Irmu. Áður höfðu hið minnsta 37 farist á eyjum í Karabískahafinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×