Erlent

Fórna náttúruverndarsvæði í Amason fyrir gullvinnslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Námuvinnsla á sér þegar stað í Para-ríki. Nú vilja stjórnvöld opna náttúruverndarsvæði fyrir vinnslu.
Námuvinnsla á sér þegar stað í Para-ríki. Nú vilja stjórnvöld opna náttúruverndarsvæði fyrir vinnslu. Vísir/AFP
Brasilísk stjórnvöld hafa lagt af náttúruverndarsvæði á stærð við Danmörku í Amasonfrumskóginum og gefið námavinnslufyrirtækjum heimild til að leita að gulli og öðrum málum þar.

Svæðið er í norðanverðri Brasilíu við Amapa- og Para-ríki og er um 46.000 ferkílómetrar að stærð. Tæpur þriðjungur þess verður opinn fyrir námuvinnslu.

Ríkisstjórnin segir að níu verndarsvæði náttúru og frumbyggja njóti enn verndar. Námufyrirtækin og orkumálaráðuneytið segja að vernduðum skógi verði ekki raskað.

Aðgerðasinnar óttast engu að síður að svæðið geti skaðast verulega í framkvæmdunum. Randolfe Rodrigues, öldungadeildarþingmaður stjórnarandstöðunnar, kallar aðgerðina „stærstu árásina á Amason undanfarin fimmtíu ár“, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Náttúruverndarsamtökin World Wildlife Fund vöruðu við því í síðasta mánuði að námuvinnsla myndi leiða til fólksfjöldasprengju á svæðinu, eyðingar skóga og vatnslinda, tap á líffræðilegum fjölbreytileika og skapa deilur um land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×