Erlent

Hamfaraflóðin í Houston: „Það eru engin fordæmi fyrir þessu“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Flóðhættuna má sjá vel á þessari mynd frá Bandarísku Veðurstofunni
Flóðhættuna má sjá vel á þessari mynd frá Bandarísku Veðurstofunni Twitter
Áhrif hamfaraflóðanna í Houston í Texas í Bandaríkjunum eru söguleg. „Það eru engin fordæmi fyrir þessu,“ segir í Twitterfærslu frá Bandarísku veðurstofunni. Þar er fólk beðið að tryggja öryggi með því að fylgja fyrirmælum stjórnvalda.

Mikil úrkoma hefur fylgt hitabeltisstorminum Harvey og veðurfræðingar spá því að hamfaraflóðin eigi aðeins eftir að versna. Um allt stórborgarsvæðið og víðar á strandsvæðum Texas er viðvörun í gildi vegna hættu á mannskæðum skyndiflóðum. Eins og sjá má á mynd sem veðurstofan birti er hættusvæðið gríðarlega stórt. 

Samkvæmt frétt BBC hefur verið greint frá fimm dauðsföllum í Houston en aðeins tvö hafa fengist staðfest. Yfir þúsund manns hefur verið bjargað undan vatsnelgnum í borginni. Fellibylurinn gekk á land við suðurströnd Bandaríkjanna um þrjúleytið aðfaranótt laugardags en Texas og nágrannaríki urðu verst úti. Þúsundir heimila voru án vatns og rafmagns. 

„Þetta eru hamfarir sem fara í sögubækurnar. Þetta er stormur sem Bandaríkin hafa ekki orðið vitni að áður,“ sagði Brock Long, forstjóri Almannavarna Bandaríkjanna (FEMA), við CNN í dag.

Reiknað er með því að tjónið af völdum Harvey komi til með að hlaupa á milljörðum Bandaríkjadala. Talið er að sum svæði verði óíbuðarhæf í fleiri mánuði. 


Tengdar fréttir

Öflugasti fellibylurinn í þrettán ár

Versta óveður sem skollið hefur á meginlandi Bandaríkjanna í rúman áratug varð í nótt og dag þegar fellibylurinn Harvey gekk yfir landið. Yfir tvö hundruð þúsund manns eru án rafmagns. Neyðarástandi var lýst yfir í fimmtíu ríkjum þar sem samgöngur lömuðust og þúsundir neyddust til að flýja heimili sín vegna veðurofsans.

Söguleg hamfaraflóð í Houston

Fordæmalaus vatnselgur liggur nú yfir Houston og fleiri svæðum nærri ströndum Texas. Flóðin þar eiga enn að versna með áframhaldandi úrhelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×