Erlent

Lífshættuleg flóð gætu fylgt fellibylnum Harvey

Kjartan Kjartansson skrifar
Hillur matvöruverslana í Houston hafa tæmst þegar íbúar þar birgja sig upp fyrir komu Harvey.
Hillur matvöruverslana í Houston hafa tæmst þegar íbúar þar birgja sig upp fyrir komu Harvey. Vísir/AFP
Íbúar í Texas búa sig nú undir að fellibylurinn Harvey gangi þar á land síðar í dag. Gríðarleg úrkoma er sögð fylgja fellibylnum, allt að 50 sentímetrar. Fólk hefur verið beðið um að rýma strandsvæði við Mexíkóflóa þar sem hætta er á sjávar- og skyndiflóðum.

Búist er við að Harvey gangi fyrst á land nærri borginni Corpus Christi seint í dag að staðartíma. Hann verði þá fellibylur af styrknum þrír, að því er segir í frétt Washington Post

Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna segir að vöxtur Harvey síðustu sólahringana sé undraverður. Harvey var flokkaður sem hitabeltislægð fram á fimmtudagskvöld en þá hafði hann magnast upp yfir sérlega hlýjum sjó í Mexíkóflóa.

Veðurfræðingar vara við að fellibylurinn og leifar hans gætu haldið kyrru yfir Texas í fjóra til sex daga. Auk úrhellis sem gæti valdið lífshættulegum flóðum verður vindstyrkur fellibylsins mikill.

Joe McComb, borgarstjóri Corpus Christi, hvatti íbúa þar til að taka viðvaranir alvarlega og að yfirgefa láglend svæði, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Um 360.000 manns búa í og við borgina en þar eru mörg láglend svæði og sandrifseyjar. Borgaryfirvöld ákváðu hins vegar ekki að skylda íbúa ekki til að rýma svæðið heldur hvöttu þau fólk aðeins til að koma sér burt sjálfviljugt.

„Ég vona að fólk hlusti á veðurfræðinga þegar þeir vara við skyndiflóðum. Skyndiflóð geta borið hratt að og þau geta verið banvæn,“ segir McComb.

Harvey er stærsti fellibylur sem gengur á land í Bandaríkjunum í tólf ár. Mannskaði varð þegar fellibylurinn Wilma gekk á land í Flórída í október árið 2005.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá fellibylinn Harvey úr myndavél um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni á braut um jörðu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×