Innlent

Tveggja leitað á Fimmvörðuhálsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Marion Gailard og Jérémy Gautheret.
Marion Gailard og Jérémy Gautheret. Lögreglan á Suðurlandi
Fjölmenn leit er hafin að tveimur aðilum á Fimmvörðuhálsi, Marion Gailard og Jérémy Gautheret. Þau eru bæði á þrítugsaldri, að því er kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi.

Leit er hafin að fólkinu á svæðinu frá Skógum, um Fimmvörðuháls, Þórsmörk og inn á Laugarveg. Þau skildu eftir sig ferðaskipulag hjá Safe Travel og áætluðu að koma í Bása að kvöldi sunnudags 30. júlí. Þau hafa enn ekki látið vita af sér og því er leit hafin. Hvorki er vitað hvernig þau eru útbúin né í hvernig fatnað þau eru klædd.

Áður var talið að konan væri ein á ferð og því hafði leit aðeins staðið yfir að henni. Nú er hins vegar komið í ljós að um er að ræða tvo aðila á ferð saman. 

Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út til að sinna eftirgrennslan eftir konunni í gærkvöldi. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig ræst út til aðstoðar með tæki til að miða út farsíma. Þónokkrir símar göngufólks voru miðaðir út en ekki sími konunnar. Því má gera ráð fyrir að annað hvort sé síminn rafmagnslaus eða að slökkt sé á honum.

Þyrlan kom aftur til Reykjavíkur rétt fyrir ellefu í gærkvöldi en þokuslæðingur var á svæðinu. Ákveðið verður innan tíðar hvort hún verður send aftur til leitar.

Ef einhver hefur séð fólkið á þessu svæði eða frekari upplýsingar er þess óskað að upplýsingar verði sendar á netfangið sudurland@logreglan.is eða haft samband við lögreglu á Suðurlandi í síma 444 2000.

Uppfært 

Fólkið er komið í leitirnar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.