Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Stjarnan - Breiðablik 2-0 | Stjörnumenn ætla berjast um titilinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Blikinn Þórður Steinar Hreiðarsson sækir að Stjörnumanninum Hilmari Árna Halldórssyni.
Blikinn Þórður Steinar Hreiðarsson sækir að Stjörnumanninum Hilmari Árna Halldórssyni. Vísir/Anton
Stjarnan vann frábæran 2-0 sigur á Breiðablik í 14. Umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld en leikurinn fór fram á Samsung-vellinum í Garðabæ. Liðið að stimpla sig í titilbaráttuna.

Leikurinn byrjaði heldur betur vel fyrir Blikana sem fengu víti strax á 2. mínútu leiksins þegar Hörður Árnason braut á Martin Lund Pedersen. Hann fór sjálfur á punktinn og Haraldur Björnsson varði vítið nokkuð auðveldlega. Það gaf heldur tóninn fyrir það sem framundan var.

Það komu kannski ekki nein mörk í fyrri hálfleikinn en leikurinn var galopinn og nokkuð skemmtilegur. Bæði lið fengu sín tækifæri en staðan samt sem áður 0-0 eftir 45 mínútur.

Boltinn hlaut að enda í netinu og það gerðist strax eftir tæplega eina mínútu í síðari hálfleiknum. Þá skallaði Hólmbert Aron Friðjónsson boltann í netið eftir hornspyrnu frá Hilmari Árna. Hilmar Árni var aftur á ferðinni 25 mínútum fyrir leikslok þegar hann skoraði sjálfur annað mark heimamanna.

Af hverju vann Stjarnan? Liðið var bara mikið mun hættulegra fram á við. Á sama tíma var rosalega lítið að frétta fremst á vellinum hjá Blikunum. Aron Bjarnason var mikið til einn frammi og fékk litla aðstoð. Stjörnumenn pressuðu gestina bara mjög vel allan leikinn og voru Blikarnir stundum í vandræðum með þá bláu. Kannski aðal ástæðan fyrir sigri Stjörnunnar er Hilmar Árni Halldórsson sem skoraði eitt og lagði upp eitt mark.

Hverjir stóðu upp úr? Hilmar Árni var stórkostlegur í kvöld. Hólmbert skoraði fínt mark fyrir Stjörnuna og Jósef Kristinn Jósefsson var einnig flottur í lið Stjörnunnar. Guðjón Baldvinsson djöflaðist mikið frammi og var Blikum oft erfiður. Hjá gestunum var það líklega Gísli Eyjólfsson sem átti ágætan leik. Aðrir náðu sér ekki á strik.

Hvað gekk illa? Blikar voru einhvern veginn aldrei líklegir eftir að liðið misnotaði vítaspyrnuna í upphafi leiksins. Aron algjörlega einn frammi og sóknarlega voru Kópavogsbúum. Mörk Stjörnunnar voru einnig bæði þess eðlis að það á að koma í veg fyrir slík mörk.

Hvað gerist næst? Stjörnumenn fara norður til Akureyrar og Blikar mæta Víkingum frá Reykjavík. Báðir leikir alveg gríðarlega mikilvægir fyrir liðin. Ef Stjarnan ætlar að keppa um titilinn verður liðið að vinna KA og ef Blikar ætla sér að gera eitthvað í sumar verða þeir að vinna næsta leik.

Maður leiksins: Hilmar Árni Halldórsson en allar einkunnir leikmanna má sjá ef ýtt er á Liðin

Hilmar: Mitt besta tímabil á ferlinum„Tvö mörk og hreint mark, það er lítið hægt að kvarta yfir því,“ segir Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður, Stjörnunnar, eftir leikinn í kvöld.

„Það gefur manni mikinn kraft þegar markvörðurinn manns ver víti svona snemma leiks. Það virkaði vel á okkur í kvöld.“

Hilmar Árni lagði upp eitt mark í kvöld og skoraði eitt. Hann hefur verið frábær í Pepsi-deildinni í sumar.

„Eigum við ekki að segja að ég sé að spila mitt mesta tímabil á ferlinum en ég er lítið að leggja mat á það. Ég reyni bara alltaf að bæta minn leik og það hefur verið ákveðinn stígandi í þessu hjá mér undanfarin ár.“

Hilmar segir að Stjarnan ætli sér einfaldlega alla leið í sumar.

„Við þurfum bara að halda áfram og gera það sem við getum til að nálgast Val. Síðan eigum við þá einnig eftir og þann leik verðum við að taka.“

Milos: Ef maður spilar tuddabolta þá á maður ekki að væla„Fyrst og fremst er ég svekktur að fá ekkert út úr þessum leik, og sérstaklega eins og leikurinn þróaðist og hvernig hann byrjaði fyrir okkur,“ segir Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, eftir 2-0, tap gegn Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.

„Þeir ná að klára sín færi og það gerðum við ekki. Bæði mörkin þeirra koma eftir okkar mistök og það má ekki gerast.“

Milos segist vissulega vera svekktur að liðið hafi misnotað vítaspyrnu í upphafi leiks.

„Menn klúðra samt alltaf vítaspyrnum. Ronaldo, Messo og Roberto Baggio hafa allir klúðrað víti. Eftir það fengum við samt alveg góð færi og við áttum bara að nýta okkur það. Þeir spila algjöran tuddabolta og mér finnst reyndar að þegar lið spila þannig bolta eiga þau ekkert að vera væla.“

Milos óskar Stjörnunni samt sem áður til hamingju með stigin þrjú. Næsti leikur Blika er gegn Víkingum en Milos byrjaði mótið sem þjálfari Fossvogsliðsins.

„Það verður bara venjulegur heimaleikur. Maður á aldrei að blanda saman tilfinningum og fótbolta.“

Rúnar: Samstilltir í baráttunni„Það er mjög gott að skora tvö og fá ekki á sig mark. Við spiluðum vel og í kvöld og menn börðust eins og ljón ,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn.

„Það kveikti í okkur þegar Haraldur varði vítið í byrjun. Okkur gekk bara heilt yfir mjög vel með þá í kvöld. Við spiluðum með þriggja manna vörn og vorum síðan sterkir frammi. Við vorum að skapa okkur fullt af fínum sóknum og ég er bara hrikalega ánægður með mína menn.“

Rúnar segir að allir í liðinu hafi verið samstilltir í því að berjast eins og ljón allan leikinn.

„Það var mikil harka í þessum leik og þeir fóru oft mjög harkalega í Guðjón í kvöld. Mér fannst t.d. eins og Elfar Freyr hefði átt að fjúka af velli á einhverjum tímapunkti í leiknum.“

Þjálfarinn segir að liðið hafi sýnt að það ætli sér að berjast um efsta sætið.

„Við förum ekkert núna að pæla í öðrum liðum og þurfum bara að hugsa um okkur.“

Andri Marinó Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Samsung-vellinum í kvöld og tók meðfylgjandi myndir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira