Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Mér fannst þetta galið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Eyþór
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var allt annað en sáttur með dómara leiksins þegar ÍBV og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli í Pepsi-deildnni í dag. Stjörnumenn jöfnuðu metin manni færri og Rúnar Páll var sáttur við að fá eitthvað út úr leiknum úr því sem komið var.

„Að spila einum færri í stöðunni 2-1, í 40 mínútur. Miðað við það þá erum við sáttir með þetta stig og virðum það en við komum hingað til að sækja þrjú stig,“ sagði Rúnar Páll í viðtali við Gabríel Sighvatsson, blaðamann Vísis eftir leikinn.

„Það var gríðarlegur kraftur í mínum leikmönnum og þeir sýndu mikinn vilja að jafna og reyna að klára leikinn þrátt fyrir að vera einum færri. Það munaði ekki miklu að við hefðum unnið þennan leik,“ sagði Rúnar Páll

Rúnar Páll var allt annað en sammála rauða spjaldinu sem Eyjólfur Héðinsson fékk í leiknum.

„Hann dettur á boltann og þeir komast samt einir í gegn. Ég veit ekki alveg hvaða hagnaður það var. Þegar menn detta á boltann, ekki viljandi, hann greip ekkert utan um boltann og reyndi að stoppa hann. Mér fannst þetta galið, persónulega. Þetta var ekkert eini dómurinn í kvöld sem hallaði á okkur fannst mér," sagði Rúnar Páll. Honum fannst dómgæslan í heild sinni ekki góð í leiknum.

„Slök í einu orði sagt. Hann hleypti leiknum upp í eitthvað rugl frá fyrstu mínútu. Þetta var harður leikur og mikið af tæklingum og grófum brotum hjá báðum liðum. Hann hleypti þessu upp í einhverja helvítis vitleysu frá fyrstu mínútu," sagði Rúnar Páll.

„Við reyndum bara að fá þrjú stig í dag og það gekk ekki upp. Ég get ekki velt möguleikunum fyrir mér fyrr en ég veit hvernig staðan fer í hinum leikjunum, það kemur bara í ljós.“ sagði Rúnar Páll að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×