Erlent

Ekki hægt að flytja dauðvona dreng í Páfagarð

Kjartan Kjartansson skrifar
Foreldar Charlie Gard hafa viljað senda hann í tilraunameðferð. Læknar segja hins vegar að hún sé engin lækning heldur geti aðeins dregið úr einkennum.
Foreldar Charlie Gard hafa viljað senda hann í tilraunameðferð. Læknar segja hins vegar að hún sé engin lækning heldur geti aðeins dregið úr einkennum. Vísir/Getty
Lagalegar ástæður koma í veg fyrir að hægt sé að flyja Charlie Gard, dauðvona tíu mánaða gamlan dreng, á sjúkrahús Páfagarðs, að sögn Borisar Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. Sjúkrahúsið hafði boðist til að taka við drengnum.

Mál Charlie Gard hefur vakið mikla athygli. Dómstólar skáru úr um að læknar hans mættu taka hann úr öndunarvél þvert á vilja foreldra hans. Læknarnir segja að drengurinn sé heilaskaðaður, hann sé blindur, heyrnalaus auk þess sem hann getur hvorki kyngt né grátið af völdum mergmisþroska, afar sjaldgæfs sjúkdóms.

Sjúkrahús Páfagarðs bauðst í gær til að taka við drengnum og leyfa foreldrum hans að ákveða hvernig meðferð hann fær.

Johnson sagði ítölskum starfsbróður sínum hins vegar að það væri ekki hægt af lagalegum ástæðum í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Best væri að sérfræðingar tækju ákvarðanir studdir dómstólum með velferð drengsins í huga.

Inngrip páfa og Trump „óhjálpleg og grimmdarleg“

Bæði Frans páfi og Donald Trump Bandaríkjaforseti hafa lýst stuðningi við Gard-fjölskylduna undanfarna daga.

Robert Winston, breskur erfðasérfræðingur, sagði ITV-sjónvarpsstöðinni að dómstólar og læknar ættu ekki að taka fram fyrir hendur foreldra um örlög barns þeirra. Sagðist hann engu að síður telja inngrip páfa og Trump „ákaflega óhjálpleg og grimmdarleg“.

„Þetta barn hefur fengið meðferð á sjúkrahúsi með mikla sérþekkingu í mergmisþroska og nú er verið að bjóða honum tækifæri á sjúkrahúsi sem hefur aldrei birt neinar rannsóknir á sjúkdómnum eftir því sem ég best veit,“ segir Winston.


Tengdar fréttir

Sjúkrahús Páfagarðs býðst til að taka við langveiku barni

Mál Charlie Gard, langveiks drengs sem bíður dauðans, hefur vakið athygli um allan heim. Barnasjúkrahús í eigu Páfagarðs hefur nú boðist til að taka við drengnum til að foreldrarnir geti sjálfir ákveðið hvenær lífsbarátta hans endar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×