Erlent

Sjúkrahús Páfagarðs býðst til að taka við langveiku barni

Kjartan Kjartansson skrifar
Chris og Connie Gard hafa barist fyrir lífi sonar síns Charlie fyrir dómstólum en hafa tapað.
Chris og Connie Gard hafa barist fyrir lífi sonar síns Charlie fyrir dómstólum en hafa tapað. Vísir/Getty
Fulltrúar sjúkrahúss í eigu Páfagarðs í Róm hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir bjóða foreldrum breska drengsins Charlie Gard að taka við honum. Til stendur að taka drenginn úr öndunarvél á sjúkrahúsi í Bretlandi.

Mál Charlie hefur vakið mikla athygli en hann er tíu mánaða gamall og þjáist af afar sjaldgæfum sjúkdómi. Læknar hans segja að hann hafi orðið fyrir heilaskaða, hann sé blindur og heyrnalaus og geti ekki kyngt eða grátið. Það eina sem haldi í honum lífinu sé öndunarvél. Til stóð að taka hann úr öndunarvélinni á föstudag en því var frestað.

Foreldrar Charlie hafa hins vegar ekki viljað taka hann úr öndunarvél þvert á ráðleggingar lækna sem telja áframhaldandi meðferð skaða drenginn. Fóru þau með málið fyrir breska dómstóla en Mannréttindadómstóll Evrópu komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að læknarnir mættu taka Charlie úr öndunarvélina gegn vilja foreldranna.

Stuðningur frá páfa og Trump

Mariella Enoc, forseti barnaspítala Páfagarðs í Róm, biður nú yfirmenn breska sjúkrahússins að kanna ástand Charlie til að ganga úr skugga um hvort óhætt sé að flytja hann þangað, að því er kemur fram í frétt CNN.

Frans páfi hafði áður lýst yfir stuðningi við fjölskylduna og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tísti um að Bandaríkin yrðu glöð að hjálpa Charlie væri það mögulegt.

Gard-fjölskyldan hefur viljað senda Charlie í tilraunameðferð til Bandaríkjanna og hefur safnað hátt í tveimur milljónum punda til þess. Læknar segja hins vegar að sú meðferð sé ekki lækning og hún muni aðeins valda drengnum áframhaldandi skaða.

Sjúkrahúsið í Róm býður foreldrunum hins vegar að hafa Charlie þar og ákveða sjálfir hvort og hvenær slökt verður á öndunarvélinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×