Erlent

Trump og páfinn heita foreldrum barns sem á að leyfa að deyja stuðningi

Kjartan Kjartansson skrifar
Páfi er sagður fylgjast með máli Charlie Gard af ástúð og sorg.
Páfi er sagður fylgjast með máli Charlie Gard af ástúð og sorg. Vísir/AFP
Frans páfi og Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsa stuðningi við foreldra ungs bresks drengs sem til stendur að taka úr öndunarvél. Breskur dómstóll hafði áður heimilað læknum að taka drenginn úr öndunarvélinni þvert á óskir foreldra hans.

Charlie Gard er tíu mánaða gamall og þjáist af sjaldgæfum og banvænum sjúkdómi sem nefnist mergmisþroski. Hann er með heilaskaða, er blindur heyrnalaus og getur hvorki kyngt né grátið. Hann dregur aðeins fram lífið með öndunarvél.

Foreldrar hans hafa barist fyrir því að koma honum í tilraunameðferð í Bandaríkjunum en dómari heimilaði læknum hans hins vegar að hefja líknandi meðferð. Taldi hann að það væri Charlie ekki fyrir bestu að senda hann í tilraunameðferðina.

Hvíta húsið segir að Trump hafi ekki rætt við Gard-fjölskylduna. Hann sé aðeins að reyna að sýna hjálpsemi.Vísir/AFP
Engin lækning til

Frans páfi sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann hvatti til þess að foreldrar Charlie fengju að vera með og líkna honum allt til enda. Trump tísti svo um drenginn í dag og sagði Bandaríkjamenn glaða vilja hjálpa ef það sé hægt.

Til stóð að taka Charlie úr öndunarvél á föstudag en breska ríkisútvarpið BBC segir að Great Ormond Street-sjúkrahúsið hafi ákveðið að halda meðferðinni áfram til að gefa foreldrunum lengri tíma.

Tilraunameðferðin sem foreldrarnir vilja koma Charlie í er hins vegar ekki lækning enda er engin slík til. Hún er aðeins talin geta dregið úr áhrifum sjúkdómsins. Fram að þessu hefur enginn sjúklingur sem hefur undirgengist meðferðina verið eins langt leiddur og Charlie.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði kæru foreldranna í síðustu viku. Töldu dómararnir að áframhaldandi meðferð myndi skaða Charlie verulega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×