Erlent

Mega taka átta mánaða gamlan dreng úr öndunarvél þvert á óskir foreldra

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Chris Gard og Connie Yates, foreldrar Charlie.
Chris Gard og Connie Yates, foreldrar Charlie. Vísir/Getty
Dómstóll í Englandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að læknar megi taka átta mánaða gamlan dreng úr öndunarvél, þvert á óskir foreldra hans.

Charlie Gard fæddist í ágúst á síðasta ári og er með mergmisþroskun, sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur því meðal annars að Charlie er með heilaskaða, heyrir ekki og getur ekki grátið.

Foreldarar hans, Connie Yates og Chris Gard, hafa áður óskað eftir því að fá að fara með son sinn til Bandaríkjanna í tilraunameðferð. Læknar höfðu hins vegar ráðlagt að Charlie yrði fluttur á líknardeild.

Tilraunameðferð ekki fyrir bestu

Dómari í málinu sagði að hann tæki málinu ekki af léttúð, en að hann teldi það vera best fyrir Charlie að leyfa læknum að taka hann úr öndunarvél. Hann hrósaði jafnframt foreldrum hans fyrir „hetjulega og göfuga baráttu“ og fyrir að standa með syni sínum frá fyrsta degi.



Foreldrar Charlie höfðu safnað 1,2 milljónum punda á tveimur mánuðum í gegnum söfnun á GoFundMe til að fjármagna tilraunameðferðina, en dómarinn taldi að það væri barninu ekki fyrir bestu.

„Læknavísindin gætu grætt á þessari tilraun, en hún væri ekki Charlie fyrir bestu nema ef útlit væri fyrir að hún gerði honum gott.“

Læknir sem bar vitni fyrir dóminum sagði að ef Charlie væri þjáður væri engin leið fyrir hann til að gefa það til kynna, hann gæti ekki hreyft sig af eigin frumkvæði og ekki grátið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×