Erlent

Skoða ábendingar um meðferð fyrir dauðvona dreng

Kjartan Kjartansson skrifar
Mál Charlie Gard hefur vakið athygli víða um heim. Hópur fólks krefst þess að hann fái áfram meðferð á Ítalíu.
Mál Charlie Gard hefur vakið athygli víða um heim. Hópur fólks krefst þess að hann fái áfram meðferð á Ítalíu. Vísir/AFP
Sjúkrahúsið sem hefur annast breska drenginn Charlie Gard sem þjáist af afar sjaldgæfum og banvænum sjúkdómi hefur óskað eftir að enskur dómstóll taki mál hans aftur upp vegna nýrra ábendinga um mögulegar meðferðir.

Charlie er tíu mánaða gamalla og þjáist af mergmisþroska sem hamlar þroska hans. Læknar hans segja hann heilaskaddaðan, hann sé blindur og heyrnalaus og hann geti hvorki kyngt né grátið. Drengurinn hefur verið í öndunarvél sem heldur í honum lífinu.

Foreldrar Charlie hafa barist fyrir að fá að senda hann til Bandaríkjanna í umdeilda tilraunameðferð en enskur dómstóll úrskurðaði að læknar mættu taka hann úr öndunarvél. Evrópudómstóllinn komst að sömu niðurstöðu í lok júní. Töldu dómstólar að áframhaldandi meðferð yrði Charlie til skaða.

Nú hefur Great Osmond Street-sjúkrahúsið óskað eftir að hæstiréttur Englands taki mál Charlie aftur fyrir, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Vísar það til ábendinga sem því hafi borist frá læknum um mögulegan ávinning af meðferð. Sjúkrahúsið segist ætla skoða óbirtar rannsóknar sem því hefur verið sent og vill að dómstóllinn taki afstöðu til þeirra líka.

Dómsúrskurður bannar nú að Charlie sé færður til meðferðar annars staðar.

Bæði Frans páfi og Donald Trump Bandaríkjaforseti hafa lýst yfir stuðningi við foreldra Charlie opinberlega.


Tengdar fréttir

Ekki hægt að flytja dauðvona dreng í Páfagarð

Utanríkisráðherra Bretlands segir best að fela sérfræðingum og dómstólum að taka ákvarðanir um örlög dauðvona drengs. Sjúkrahús Páfagarðs hafði boðist til að taka við drengnum og halda meðferð áfram.

Sjúkrahús Páfagarðs býðst til að taka við langveiku barni

Mál Charlie Gard, langveiks drengs sem bíður dauðans, hefur vakið athygli um allan heim. Barnasjúkrahús í eigu Páfagarðs hefur nú boðist til að taka við drengnum til að foreldrarnir geti sjálfir ákveðið hvenær lífsbarátta hans endar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×