Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Valur - Stjarnan 1-1 | Valsmenn endurheimtu toppsætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daníel Laxdal og Kristinn Ingi Halldórsson í baráttunni í kvöld.
Daníel Laxdal og Kristinn Ingi Halldórsson í baráttunni í kvöld. vísir/anton brink
Valur og Stjarnan skildu jöfn, 1-1, í stórleik 10. umferðar Pepsi-deildar karla í kvöld.

Valsmenn fengu vítaspyrnu á 19. mínútu en Sigurður Egill Lárusson skaut í stöng.

Á uppbótartíma fyrri hálfleiks kom Hólmbert Aron Friðjónsson Stjörnunni yfir með laglegri bakfallsspyrnu.

Bjarni Ólafur Eiríksson jafnaði metin í 1-1 með frábæru skoti á 70. mínútu og þar við sat.

Með stiginu endurheimtu Valsmenn toppsæti deildarinnar eftir að Grindvíkingar skutust þangað með 2-1 sigri á KA fyrr í kvöld.

Stjarnan, sem hefur ekki unnið deildarleik síðan 28. maí, er í 4. sætinu, sex stigum á eftir Val og Grindavík.

Af hverju varð jafntefli?

Bæði lið spiluðu Evrópuleik á fimmtudaginn og það sást á spilamennsku þeirra.

Valsmenn áttu sína spilkafla en hafa oft spilað betur. Tvö bestu færi Vals féllu í skaut Kristins Inga Halldórssonar en honum er einfaldlega fyrirmunað að skora.

Stjörnumenn sættu sig við að vera minna með boltann en spiluðu varnarleikinn að mestu vel. Þeir gleymdu sér þó illilega í jöfnunarmarkinu.

Þessir stóðu upp úr:

Bjarni Ólafur var að venju traustur í stöðu vinstri bakvarðar og skoraði jöfnunarmarkið sem gæti reynst afar dýrmætt þegar talið verður upp úr kössunum í haust.

Orri Sigurður Ómarsson og Einar Karl Ingvarsson áttu fínan leik í liði Vals og þá átti Guðjón Pétur Lýðsson góða innkomu.

Stjörnuvörnin spilaði var góð með Brynjar Gauta Guðjónsson sem besta mann. Hólmbert fékk úr litlu að moða en gerði frábærlega í markinu.

Hvað gekk illa?

Það var ekki jafn mikið flæði í leik Vals og oft áður í sumar. Sigurður Egill náði sér ekki á strik og sköpunargleðina vantaði á síðasta þriðjungi vallarins.

Stjörnumenn lögðu höfuð áherslu á að verjast og gerðu það vel. Þeir áttu þó sínar sóknir og hefðu mátt nýta skyndisóknirnar sínar í seinni hálfleik betur.

Hvað gerist næst?

Valsmenn mæta Domzale frá Slóveníu í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn. Þeir fara svo í Víkina á sunnudaginn eftir viku.

Næstu þrír leikir Stjörnunni eru allir á heimavelli; gegn KR og Grindavík í Pepsi-deildinni og ÍBV í undanúrslitum Borgunarbikarsins.

Einkunnir:

Valur (4-3-3): Anton Ari Einarsson 6 - Arnar Sveinn Geirsson 6, Orri Sigurður Ómarsson 6, Eiður Aron Sigurbjörnsson 6 (30. Rasmus Christiansen 6), Bjarni Ólafur Eiríksson 7* (maður leiksins) - Haukur Páll Sigurðsson 6 (72. Andri Fannar Stefánsson -), Sindri Björnsson 5 (60. Guðjón Pétur Lýðsson 6), Einar Karl Ingvarsson 6 - Dion Acoff 5, Sigurður Egill Lárusson 4, Kristinn Ingi Halldórsson 4.

Stjarnan (4-3-3): Haraldur Björnsson 6 - Jóhann Laxdal 6, Brynjar Gauti Guðjónsson 7, Daníel Laxdal 6, Jósef Kristinn Jósefsson 6 - Alex Þór Hauksson 5, Eyjólfur Héðinsson 5, Baldur Sigurðsson 5 (52. Kristófer Konráðsson 5) - Heiðar Ægisson 5, Hilmar Árni Halldórsson 5, Hólmbert Aron Friðjónsson 6.

Baldur: Alltaf gott að fá stig

Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, var ágætlega sáttur með stigið sem Garðbæingar fengu á Valsvellinum í kvöld.

„Það er alltaf gott að fá stig og sérstaklega á erfiðum útivelli. Við fengum mark á virkilega góðum tímapunkti og það hefði átt að duga til sigurs. Það er svekkjandi að fá á sig mark úr föstu leikatriði þar sem við missum einbeitinguna í smá stund. En við virðum stigið,“ sagði Baldur.

En hvernig fannst honum spilamennska Stjörnunnar í leiknum?

„Hún var góð. Við vissum að Valsararnir eru góðir hérna heima. Við reyndum að koma hátt á þá í byrjun og það gekk vel. Svo ná þeir upp sínu spili og þá þurftum við að falla niður. Mér fannst þeir ekki skapa sér mikið en þeir fengu víti eins og alltaf,“ sagði Baldur en Valur fékk einnig vítaspyrnu í bikarleiknum gegn Stjörnunni á Hlíðarenda. Baldur vildi þó ekki tjá sig nánar um vítaspyrnudóminn.

„Ég nenni ekki að tjá mig um það. En þetta er vaninn,“ sagði fyrirliðinn.

Eftir góða byrjun á tímabilinu hefur Stjarnan aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum sínum og fjærlægst toppliðin í Pepsi-deildinni.

„Við förum vel yfir hlutina fyrir hvern einasta leik. Það þarf eitthvað að gerast. Við þurfum að ná þremur stigum og það gefur okkur vonandi sjálfstraust,“ sagði Baldur að lokum.

Ólafur: Bæði lið voru þreytt

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, segir að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit í leiknum gegn Stjörnunni í kvöld.

„Mér fannst bæði lið vera þreytt. Það voru ekkert rosalega mikil gæði í fótboltanum en menn voru að berjast og voru duglegir. Ætli þetta hafi ekki verið þokkalega sanngjarnt,“ sagði Ólafur sem var sáttur með að ná að jafna metin eftir að hafa lent undir.

„Við virðum stigið þótt ég hefði viljað hafa þau þrjú. En heilt yfir var þetta baráttuleikur og svona leikir vinnast oft á föstum leikatriðum,“ sagði Ólafur.

En hvað vantaði í leik Vals í kvöld að mati þjálfarans?

„Ferskleika. Hann var ekki til staðar. Við vorum þreyttir. Það er erfitt að spila svona þétt,“ sagði Ólafur sem fer nú að undirbúa sían menn fyrir Evrópuleikinn gegn Domzale frá Slóveníu.

„Mér líst feikna vel á hann. Nú fer ég að skoða þá. Ég á einhverjar vídeóspólur af þeim,“ sagði þjálfarinn að lokum.

Rúnar Páll: Öll seinni umferðin er eftir

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var mátulega sáttur með stigið gegn Val í kvöld.

„Þetta var hörku leikur en súrt að ná ekki að halda þessu og vinna hann. Þeir fengu horn eftir sóknarbrot og skora upp úr því. Mér fannst við spila vel í þessum leik en þetta var líklega sanngjarnt jafntefli,“ sagði Rúnar Páll sem var ánægður með varnarleik sinna manna.

„Við lokuðum á þeirra styrkleika, fengum fínar sóknir í fyrri hálfleik og vorum alltaf hættulegir. Við spiluðum vörnina vel og vorum alltaf nálægt þeim. En við vorum svolítið mistækir í sendingum á mikilvægum augnablikum í leiknum.“

Guðjón Baldvinsson gat ekki leikið með Stjörnunni í kvöld vegna veikinda. Rúnar kvaðst sáttur með hvernig Garðbæingar leystu það að vera án síns helsta markaskorara.

„Við spiluðum feyki vel og leystum það vel,“ sagði Rúnar Páll.

Stjarnan er sex stigum á eftir toppliðum Vals og Grindavík. Lítur Rúnar Páll svo á að Stjörnumenn séu enn í toppbaráttu?

„Það er einn leikur eftir í fyrri umferðinni. Öll sú seinni er eftir og það eru fullt af stigum í boði. Við þurfum að fara inn í næsta leik gegn KR og gera okkar besta þar,“ sagði Rúnar Páll að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira