Erlent

Segja saríngasi hafa verið beitt í Khan Sheikhoun

Samúel Karl Ólason skrifar
Ungur drengur sem lenti í árásinni sem um ræðir.
Ungur drengur sem lenti í árásinni sem um ræðir. Vísir/AFP
Efnavopnastofnunin, OPCW, hefur staðfest að saríngasi hafi verið beitt gegn borgurum í Khan Sheikhoun í Sýrlandi í apríl. Stofnunin segir tugi hafa látið lífið í árásinni og fordæmir notkun efnavopna, sem er bönnuð. Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna mun nú rannsaka hvort að ríkisstjórn Bashar al-Assad beri ábyrgð á árásinni eins og hún hefur verið sökuð um af meðal annars Bandaríkjunum.

Eftir að árásin var gerð skutu Bandaríkin flugskeytum að flugvelli sem þeir segja að efnavopnaárásin hafi verið gerð frá.

Minnst 90 manns létu lífið í árásinni.

Rannsakendur OPCW ræddu við vitni, framkvæmdu krufningar og tóku ýmis sýni. Skýrsla rannsakenda hefur ekki verið gerð opinber, en niðurstöðurnar voru kynntar á vef stofnunarinnar í gærkvöldi.

Assad hefur ítrekað sagt að árás hafi aldrei verið gerð á bæinn og að hún sé tilbúningur. Bandamenn Assad í Rússlandi hafa tekið undir það og jafnvel gefið í skyn að efnavopnaframleiðsla uppreisnarmanna hafi sprungið.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sendi út tilkynningu í gærkvöldi þar sem sagði að staðreyndirnar sýni fyrirlitlega og hættulega notkun ríkisstjórnar Assad á efnavopnum.

Ríkisstjórn Sýrlands gekk til liðs við OPCW árið 2013 eftir að henni hafði verið kennt um efnavopnaárás í úthverfi Damaskus. Assad-liðar lögðu fram 1,300 tonn af efnavopnum og efnum til framleiðslu efnavopna sem var eytt. Stofnunin hefur þó aldrei staðfest að ríkisstjórnin ætti ekki meiri efnavopn og hún hefur margsinnis verið sökuð um notkun slíkra vopna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×