Erlent

Bandalag Macron fékk um þriðjung atkvæða

Kjartan Kjartansson skrifar
Emmanuel Macron forseti er á sigurbraut.
Emmanuel Macron forseti er á sigurbraut. Vísir/EPA
La République en Marche, flokkur Emmanuels Macron, forseta Frakklands, og samstarfsflokkur hans hlutu 32,3% atkvæða í fyrri umferð frönsku þingkosninganna í gær. Gangi spár eftir gæti bandalagið undir hans stjórn unnið 445 af 557 sætum í franska þinginu.

Þegar öll atkvæði hafa verið talin stefnir í stórsigur Macron og félaga. Hægriflokkur Repúblikana fékk um fimmtung atkvæða en öfgahægriflokkur Marine Le Pen, Þjóðfylkingin, fékk 13,2%. Öfgavinstriflokkurinn Frakkland óbeygt fékk um 11% samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Sósíalistaflokkurinn, flokkur Francois Hollande, fráfarandi forseta, galt afhroð og virðist ætla að tapa allt að 200 þingsætum. Hann hlaut aðeins stuðning 9,5% þeirra sem kusu.

Kosið á milli þeirra sem hlutu flest atkvæði um næstu helgi

Önnur umferð þingkosninganna fara fram á sunnudag. Þá verður kosið á milli þeirra frambjóðenda sem fengu yfir 12,5% atkvæða í hverju einmenningskjördæmi. Afgerandi kosning náðist aðeins í fjórum kjördæmum í fyrri umferðinni. 

Verulega dró úr kjörsókn frá því í síðustu kosningum. Nú var kjörsóknin 48,7% en í fyrri umferðinni árið 2012 var hún 57,2%.


Tengdar fréttir

Kannanir benda til stórsigurs flokks Macron

Skoðanakannanir benda til að flokkur Emmanuel Macron kunni að ná stærsta meirihluta á franska þinginu frá stórsigri Charles de Gaulle í kjölfar stúdentamótmælanna og allsherjarverkfallanna í landinu árið 1968.

Kosningarnar gætu orðið sögulegar

Kjörstaðir í Frakklandi opnuðu í morgun vegna fyrri umferðar þingkosninga þar í landi. Kosningarnar gætu orðið sögulegar því miðað við kosningaspár gæti Emmanuel Macron, sem var kjörinn forseti fyrir mánuði síðan, náð meirihluta á þinginu með nýstofnuðum flokki sínum. Stjórnmálafræðingur segir Macron vera fulltrúa hins franska frjálslyndis.

Frakkar bjóða loftslagsvísindamenn velkomna

Frönsk stjórnvöld hafa ákveðið að bjóða bandarísku vísindafólki, nemum, kennurum og fyrirtækjum, sem vilja taka slaginn gegn loftslagsbreytingum, að búa og starfa í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×