Erlent

Dómsmálaráðherra Trump ber vitni í dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump, kemur fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag. Búist er við að hann verði spurður út í samskipti sín við rússneskan sendiherra og aðkomu sína að brottrekstri James Comey, fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI.

Ólíklegt er talið að Sessions muni greina frá samtölum sínum við forsetann, að því er Politico hefur eftir heimildamönnum sem blaðið segir standa ráðherranum nærri. The Guardian segir að mögulega muni Sessions neita að svara og bera fyrir sig réttindi sem handhafar framkvæmdavaldsins hafa til að veita ekki upplýsingar.

Sessions varð uppvís að því að hafa ekki greint frá samskiptum sínum við rússneska embættismenn fyrir þingnefnd sem fjallaði um skipan hans í embætti dómsmálaráðherra. Hann sagði sig frá rannsókn á meintum tengslum samstarfsmanna Trump við Rússa í kjölfarið.

Ráðherrann líklega sjálfur undir smásjánni

Comey bar fyrir nefndinni í síðustu viku að hann hefði beðið Sessions um að sjá til þess að Trump hefði ekki beint samband við sig aftur. Sagði hann forsetann hafa krafið sig um hollustu á einkafundi þeirra og lýst von sinni um að Comey hætti rannsókn á tengslunum við Rússa. Túlkaði Comey það sem tilmæli þess efnis.

James Comey bar vitni eiðsvarinn í síðustu viku.Vísir/Getty
Dómsmálaráðuneytið gaf út yfirlýsingu í kjölfarið þar sem það neitaði frásögn Comey af samskiptum þeirra Sessions um forsetann.

Politico segir að samskipti Trump og Sessions hafi verið sérlega stirð undanfarið. Forsetinn kenni dómsmálaráðherranum um að skipaður hafi verið sérstakur rannsakandi til að kanna tengsl framboðs hans við Rússa. Þá telur hann að Sessions hefði ekki átt að segja sig frá málunum.

Sessions er líklega sjálfur undir smásjánni hjá Robert Mueller, rannsakanda dómsmálaráðuneytisins. Comey gaf í skyn í framburði sínum í síðustu viku að fleiri ástæður hefðu verið fyrir því að Sessions dróg sig í hlé en aðeins sú að hann hefði komið nærri framboði Trump.


Tengdar fréttir

Neitar að hafa rætt um Comey við Trump

Donald Trump er sagður hafa kallað James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI, „klikkhaus“ á fundi með Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í síðustu viku. Lavrov neitar því hins vegar að þeir hafi rætt um Comey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×