Erlent

Neitar að hafa rætt um Comey við Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Sergej Lavrov (t.v.), Donald Trump og Sergej Kislyak, sendiherra (t.h.) á fundi þeirra í Hvíta húsinu 10. maí.
Sergej Lavrov (t.v.), Donald Trump og Sergej Kislyak, sendiherra (t.h.) á fundi þeirra í Hvíta húsinu 10. maí. Vísir/AFP
Rússneski utanríkisráðherrann Sergej Lavrov neitar því að hafa rætt við Donald Trump Bandaríkjaforseta um brottrekstur forstjóra alríkislögreglunnar FBI þegar hann heimsótti Hvíta húsið fyrr í þessum mánuði.

Bandaríska dagblaðið New York Times greindi frá því í gær að Trump hefði kallað James Comey, sem hann rak sem forstjóra FBI í síðustu viku, „klikkhaus“ þegar hann ræddi við Lavrov og rússneska sendiherrann Sergej Kislyak 10. maí.

Lavrov neitar því hins vegar að þeir hafi einu sinni rætt um Comey á fundinum á forsetaskrifstofunni, að því er CNN greinir frá.

„Við komum ekki inn á þetta efni,“ sagði Lavrov við fréttamenn á blaðamannafundi á Kýpur í dag. Rússneska ríkisfréttastofan TASS hefur þetta eftir honum.

Afdrifaríkur fundur með rússnesku embættismönnunum

Fundur Trump með Lavrov og Kislyak dró töluverðan dilk á eftir sér. Bandarískum blaðamönnum var ekki leyft að koma inn á forsetaskrifstofuna fyrir fundinn en síðar birti TASS myndir frá rússneskum ljósmyndara sem fékk að fara inn.

Tímasetning fundarins var sömuleiðis umdeild en hann átti sér stað daginn eftir að Trump rak Comey. Ásakanir eru um að það hafi forsetinn gert til að hindra framgang rannsóknarinnar á meintum tengslum framboðs hans við Rússa.

Þá vakti nærvera Kislyak athygli því hann er rússneski embættismaðurinn sem þjóðaröryggisráðgjafinn Michael Flynn og dómsmálaráðherrann Jeff Sessions lugu til um að hafa rætt við. Flynn sagði í kjölfarið af sér og Sessions sagði sig frá rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum vestanhafs.

Ekki var nóg um það heldur kom síðar í ljós að Trump hafði greint Rússunum frá trúnaðarupplýsingum um ógn af hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams sem þóttu svo viðkvæmar að bandarísk stjórnvöld höfðu ekki einu sinni deilt þeim með bandamönnum sínum.


Tengdar fréttir

Martraðarbyrjun hjá Donald Trump

Forseti Bandaríkjanna er óvinsælli en fyrirrennarar hans voru eftir jafn langt starf. Tvö hneykslismál skekja nú ríkisstjórn Trumps. Hann á að hafa beðið yfirmann FBI um að stöðva rannsókn á þjóðaröryggisráðgjafa og deilt leynilegu

Trump sakaður um að hindra framgang réttvísinnar

Skömmu áður en Donald Trump Bandaríkjaforseti rak James Comey sem forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar fór hann þess á leit við Comey að alríkislögreglan léti af rannsókn á tengslum þjóðaröryggisráðgjafans Michael Flynn við Rússland. Trump er sakaður um að hindra framgang réttvísinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×