Erlent

Duterte segir spilafíkil hafa staðið fyrir ódæðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Mynd náðist af árásarmanninum í öryggismyndavél.
Mynd náðist af árásarmanninum í öryggismyndavél. lögregla á filippseyjum
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segir að mjög skuldugur spilafíkill hafi borið ábyrgð á árásinni í spilavítinu í höfuðborginni Manila fyrr í vikunni þar sem um fjörutíu manns létu lífið.

„Hann missti allt sem hann átti og missti svo vitið,“ segir Duterte.

Hryðjuverkasamtökin ISIS höfðu áður lýst yfir ábyrgð á ódæðnu. Lögreglustjórinn Oscar Albayalde leggur þó einnig áherslu á að spilafíkillinn, sem var þriggja barna faðir, hafi staðið fyrir ódæðinu. „Við endurtökum að þetta var ekki hryðjuverk,“ sagði Albayalde á fréttamannafundi.

Í frétt New York Times segir að árásarmaðurinn, hinn 42 ára Jessie Carlos, hafi verið fyrrverandi starfsmaður filippseyska fjármálaráðuneytisins. Hafi honum í apríl, að ósk fjölskyldu sinnar, verið bannað að stíga fæti í spilavíti vegna fíknar sinnar.

Maðurinn skaut á fólk í spilavítinu áður en hann kveikti þar eld. Flest fórnarlömbin létust af völdum köfnunar vegna mikils reyks sem myndaðist í spilavítinu.


Tengdar fréttir

36 lík fundin eftir árásina í Manila

Að minnsta kosti 36 lík hafa nú fundist í hóteli og spilavíti í Manila á Filippseyjum en byssumaður hóf þar skothríð í nótt.

Skotárás á fjölsótt hótel á Filippseyjum

Hið vinsæla hótel Resorts World Manila í filipps­eysku höfuðborginni Maníla, var girt af í gærkvöldi eftir að lögreglu bárust tilkynningar um skothríð og sprengingar.

Skotárás í Filippseyjum

Dvalarstaðnum Resorts World Manila á Filippseyjum hefur verið lokað af eftir að sprenging heyrðist og að maður skaut af byssu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×