Erlent

Íslamska ríkið lýsir yfir ábyrgð á árásinni í London

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þetta er þriðja hryðjuverkaárásin í Bretlandi á síðustu þremur mánuðum.
Þetta er þriðja hryðjuverkaárásin í Bretlandi á síðustu þremur mánuðum. Vísir/afp
Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamska ríkið hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni í London í gær. BBC greinir frá. 

Þetta kemur fram í fjölmiðli á vegum samtakanna þar sem segir að „sveit vígamanna á vegum samtakanna hafi framkvæmt árás í London í gær.“

Árásarmennirnir þrír létu til skarar skríða í gærkvöldi við London Bridge og Borough Market, vopnaðir sendiferðabíl og hnífum, með þeim afleiðingum að sjö manns létust og um fimmtíu manns særðust, þar af 21 alvarlega. Þeir voru skotnir til bana af lögreglu, einungis átta mínútum eftir að fyrsta útkall barst.

Tólf hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu á árásinni, fimm karlmenn og sjö konur. Húsleitir hafa verið gerðar víðs vegar um London.

Umrædd hryðjuverkasamtök lýstu einnig yfir ábyrgð á sprengjuárásinni í Mancester Arena á tónleikum Ariönu Grande þann 22. maí síðastliðinn, þar sem 22 manns létust og tugir særðust. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×