Erlent

„Tortímandinn“ hefur látið ógilda 1500 barnahjónabönd

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Emma Watson, velgjörðarsendiherra UN Women, ásamt Theresu Kachindamoto í Malaví.
Emma Watson, velgjörðarsendiherra UN Women, ásamt Theresu Kachindamoto í Malaví.
Nýlega tóku í gildi lög í Malaví þar sem stjórnarskrá landsins var breytt á þann veg að nú er ólöglegt að gifta sig fyrir 18 ára aldur.

Malavíska þingið samþykkti um miðjan febrúar að breyta stjórnarskránni á þennan veg og í lok apríl staðfesti Peter Mutharika, forseti Malaví, breytinguna. Með henni er lokað fyrir smugu sem var í lögum Malaví og kváðu á um að leyfilegt væri að giftast 15 ára gömlum börnum ef foreldrarnir gæfu leyfi fyrir því.

Mikið um barnahjónabönd í Malaví

Lagabreytingin er þýðingarmikil í baráttunni gegn barnahjónaböndum í landinu en samkvæmt UNICEF er Malaví með 11. hæsta hlutfall barnahjónabanda í heiminum. Eru það aðallega ungar stúlkur sem giftar eru eldri mönnum þegar þær eru enn á barnsaldri.

 

Einn ötulasti baráttumaðurinn gegn barnahjónaböndum í Malaví er Theresa Kachindamoto sem gengur jafnan undir nafninu „The Terminator“ eða „Tortímandinn.“ Ástæðan fyrir gælunafninu er sú að hún hefur á undanförnum sex árum látið ógilda 1500 barnahjónabönd og hjálpað stúlkum að komast aftur í skóla.

Fræðir foreldra, karlmenn og stúlkur um alvarlegar afleiðingar barnahjónabanda

Kachindamoto er einn af 300 héraðshöfðingjum í Malaví sem UN Women veita fjárhagslega og tæknilega aðstoð við að binda endi á barnahjónabönd. Í landinu er hlutverk héraðshöfðingjanna meðal annars að varðveita hefðir samfélagsins en það veitir þeim rétt til að afnema skaðlega siði á borð við þvinguð barnahjónabönd.

Alls ræður Kachindamoto yfir 551 þorpi og hlutverk hennar meðal annars fólgið í því að leiðbeina þorpshöfðingjunum við að fræða íbúa þorpanna, foreldra, karlmenn og stúlkurnar sjálfar um alvarlegar afleiðingar barnahjónabanda fyrir stúlkur og konur. Þá fá kennarar einnig fræðslu en margir þeirra eru haldnir fordómum gagnvart barnsungum mæðrum sem koma aftur í skóla eftir að hafa eignast barn.

Hægt að leggja baráttunni lið

Með vinnu sinni hvetur Kachindamoto til viðhorfsbreytingar á meðal þorpsbúa en hún leggur mikla áherslu á að stúlkur gangi í skóla. Þá vinnur hún hörðum höndum að því að koma stúlkum sem hafa verið giftar í skóla.

Ef einhver þorpshöfðingi undir stjórn Kachindamoto leyfir barnahjónaband er honum umsvifalaust vikið úr starfi en nú þegar hefur „Tortímandinn“ rekið fimm höfðingja úr embætti. Barátta hennar gegn barnahjónaböndum heldur áfram en Íslendingar geta stutt við málefnið með þvía ð senda sms-ið KONUR í símanúmerið 1900 og lagt þannig sitt af mörkum við að ógilda barnahjónabönd í Malaví.

 

Hér að neðan má sjá umfjöllun UN Women um Kachindamoto og barnahjónabönd í Malaví og hér má lesa ítarlegt viðtal við Kachindamoto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×