Erlent

Þrjátíu og sex gíslar lausir úr haldi ISIS

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Farið var með gíslana til Dohuk í norðurhluta Íraks.
Farið var með gíslana til Dohuk í norðurhluta Íraks. Vísir/Getty
Þrjátíu og sex meðlimir Yazidi-ættbálksins eru frjálsir eftir nær þrjú ár í haldi hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins, ISIS. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum. BBC greinir frá.

Farið var með gíslana í miðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Dohuk í norðurhluta Íraks. Enn er óljóst hvort fólkið hafi sloppið sjálft úr prísundinni eða látið laust. Ekki fengust frekari upplýsingar um málið frá Sameinuðu þjóðunum.

Íslamska ríkið myrti og hneppti í ánauð þúsundir úr Yazidi-ættbálknum árið 2014 eftir að samtökin tóku yfir bæinn Sinjar í norðvesturhluta Íraks.

Gíslarnir þrjátíu og sex komu til Dohuk fyrir tveimur dögum og þar vinna starfsmenn Sameinuðu þjóðanna að því að koma þeim í samband við fjölskyldur sínar. Þá hefur fólkið fengið bæði læknisþjónustu og sálfræðiaðstoð. Konur og börn í hópnum munu einnig hljóta sérhæfðari aðstoð.

„Það er ekki hægt að ímynda sér það sem þessar konur og stúlkur hafa þurft að þola,“ var haft eftir Lise Grande, tengilið Sameinuðu þjóðanna í Írak. Hún sagði enn fremur að Sameinuðu þjóðirnar ætluðu að gera allt sem í sínu valdi stendur til að hjálpa gíslunum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sakað ISIS um þjóðarmorð á Yazidi-ættbálknum. Áætlað er að enn séu um fimmtánhundruð konur og stúlkur í haldi Íslamska ríkisins en óttast er að þær hafi verið, og séu enn, beittar miklu og langvarandi kynferðisofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×