Íslenski boltinn

Tobias stefnir á fimmtán mörk, gullskóinn og Íslandsmeistaratitilinn með KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tobias Thomsen ætlar sér stóra hluti.
Tobias Thomsen ætlar sér stóra hluti. vísir
Danski framherjinn Tobias Thomsen sem hóf ferilinn hjá KR með marki í 4-1 sigri liðsins á Þór í átta liða úrslitum Lengjubikarsins í gærkvöldi stefnir í hæstu hæðir með vesturbæjarliðinu í sumar.

Tobias sér fram á að raða inn mörkum fyrir KR-inga, hirða gullskóinn og verða Íslandsmeistari með liðinu í haust en hann kom til KR frá AB í dönsku 1. deildinni.

„Það var ljúft að byrja svona vel. Sem framherji vill maður alltaf skora en það mikilvæga er að kynnast liðsfélögunum. Það er samt gott að hafa unnið leikinn,“ segir Thomsen í viðtali við bold.dk.

Danski framherjinn var fastamaður í byrjunarliði AB og var búinn að skora sex mörk í 20 leikjum fyrir liðið sem er á leið niður í 2. deildina.

„Ég er aðeins að fara út úr þægindarammanum með því að koma hingað en ég þarf á þessu að halda. Mér leið alveg vel í AB en við vorum bara að tapa of mikið af leikjum. Þegar þetta tækifæri bauðst hikaði ég ekki,“ segir Thomsen sem ætlar sér stóra hluti í sumar.

„KR er frábært félag og liðið nógu gott til að verða Íslandsmeistari. Ég sjálfur hef ekki sett mér nein sérstök markmið en það væri fínt að byrja á því að skora fimmtán mörk. Auðvitað vil ég svo verða markahæstur í deildinni,“ segir Tobias Thomsen.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.