Erlent

Trump: Bandaríkin fullfær um að takast á við Norður-Kóreu án Kína

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Bandaríkin eru reiðubúin til þess að bregðast við kjarnorkuógn Norður-Kóreu á eigin spýtur ef Kínverjar geta ekki þrýst á stjórnvöld í Pyongyang. Þetta kemur fram í viðtali Financial Times við Donald Trump.

„Ef Kína er ekki reiðubúið til þess að leysa mál Norður-Kóreu, þá munum við leysa það. Það er allt sem ég segi þér.“

Trump mun funda með Xi Jinping, forseta Kína, næstkomandi fimmtudag og föstudag á Mar-a-Lago setri sínu í Flórída en fastlega er gert ráð fyrir því að leiðtogarnir tveir muni ræða Norður-Kóreu og þá ógn sem stafar af kjarnorkuvopnaþróun þeirra.

„Kína hefur mikil áhrif á Norður-Kóreu. Og Kína mun annaðhvort ákveða að hjálpa okkur með Norður-Kóreu, eða ekki.“

K.T. McFarland, einn af þjóðaröryggisráðgjöfum Trump hefur fullyrt að ráðamenn þar í landi telji að Norður-Kóreumenn muni geta skotið kjarnorkueldflaugum á austurströnd Bandaríkjanna áður en kjörtímabili Trump lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×