Erlent

Fyrrverandi rússneskur þingmaður skotinn í Kænugarði

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneski þingmaðurinn Denis Voronenkov var skotinn til bana í Kænugarði í dag.
Rússneski þingmaðurinn Denis Voronenkov var skotinn til bana í Kænugarði í dag. Vísir/AFP
Fyrrverandi rússneski þingmaðurinn Denis Voronenkov var skotinn til bana í Kænugarði í dag. Lögreglan segir hann hafa verið skotinn tvisvar sinnum í höfuðið við inngang að hóteli í borginni, en hann var á leið á fund með öðrum fyrrverandi þingmanni.

Voronenkov var áður meðlimur í Kommúnistaflokki Rússlands og þingmaður í neðri deild þingsins. Hann flutti til Úkraínu í fyrra ásamt konu sinni Maria Maksakova, sem einnig var þingmaður.

Samkvæmt frétt Guardian segist Voronenkov hafa flutt vegna áreitis öryggisstofnana Rússlands og hafði hann afsalað sér rússneskum ríkisborgararétti sínum.

Voronenkov hafði gagnrýnt Vladimir Putin, forseta Rússlands, eftir að hann flutti frá Rússlandi og sagt opinberlega að það hefðu verið mistök að innlima Krímskaga. Hann var á leið á fund með Ilya Ponomarev, sem einnig hafði flutt frá Rússlandi.

Samkvæmt Kyivpost særði morðinginn lífvörð Voronenkov, sem tókst þó einnig að særa morðingjann. Báðir hafa verið fluttir á sjúkrahús. Uppfært 14:10: Morðinginn lést á sjúkrahúsi.

Yfirvöld í Úkraínu hafa kennt Rússum um morðið og segja að um „hryðjuverk ríkis“ sé að ræða. Sjálfur sagði Voronenkov í viðtali í febrúar að fólk í rússnesku sjónvarpi hefði kallað eftir því að honum yrði ráðinn bani.

Yfirvöld í Rússlandi segja ásakanir um að þeir hafi látið myrða Voronenkov vera fáránlegar, samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Vert er að vara lesendur við þessu myndbandi frá vettvangi í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×