Erlent

Forseti Suður-Kóreu hrökklast úr höllinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu svipti Park Geun-hye embætti forseta á föstudag.
Stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu svipti Park Geun-hye embætti forseta á föstudag. Vísir/EPA
Park Geun-Hye yfirgaf Bláa húsið, forsetahöll Suður-Kóreu, í dag en hún var svipt embætti fyrir helgi. Forsetinn fyrrverandi gæti átt yfir höfði sér saksókn vegna spillingar.

Stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu setti Park af á föstudag í kjölfar þess að þing landsins ákærði hana í desember. Park er sökuð um að hafa átt þátt í fjárkúgunum gegn fyrirtækjum ásamt vinkonu sinni.

Sjónvarpsstöðvar fylgdust með bílalest forsetans fráfarandi þegar hún yfirgaf forsetahöllina í dag. Park, sem nýtur ekki lengur friðhelgi frá saksókn eftir embættismissinn, var sögð á leiðinni til einkaheimilis síns í suðurhluta Seúl.

Hundruð lögreglumanna, fréttamanna og stuðningsmenn söfnuðust saman við heimili Park. Stuðningsmenn hennar stóðu þar tímunum saman, veifuðu suður-kóreska fánanum, sungu þjóðsönginn og kyrjuðu slagorð um að ákæran á hendur henni yrði felld niður að því er kemur fram í frétt AP-fréttastofunnar.

Park hefur ekkert tjáð sig opinberlega eftir embættismissinn á föstudag. Hún hefur beðist afsökunar á að hafa treyst vinkonu sinni sem nú dúsir í fangelsi en neitar jafnframt algerlega sök.


Tengdar fréttir

Kalla eftir því að Park verði handtekin

Mótmælendur í Suður Kóreu hafa kallað eftir því að Park Geun-hye, sem vikið var úr embætti forseta á dögunum, verði handtekinn fyrir spillingu og brot í opinberu starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×