Enski boltinn

Gylfi tölfræðilega betri en Alli, Hazard og Lallana en komst samt ekki úrvalslið Lampards

Gylfi Þór Sigurðsson komst ekki á miðjuna hjá Frank Lampard.
Gylfi Þór Sigurðsson komst ekki á miðjuna hjá Frank Lampard. vísir/getty/sky sports
Frank Lampard, fyrrverandi leikmaður West Ham, Chelsea og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, var gestastjórnandi í fótboltaþættinum vinsæla Monday Night Football á Sky Sports í gærkvöldi þar sem hann leysti af Gary Neville.

Lampard bauð meðal annars upp áhugaverðar pælingar um Paul Pogba, miðjumann Manchester United, en þessi þrefaldi Englandsmeistari sagði að lið kaupa ekki leikmann á 90 milljónir punda til að fá 90 milljónir vandamála.

Nú styttist í að leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar þurfi að fara að velja besta leikmanninn, besta unga leikmanninn og lið ársins. Atkvæðaseðilinn berst til þeirra á næstu vikum og var Lampard því fenginn til að velja úrvalslið tímabilsins í þætti gærkvöldsins.

Frank Lampard með Jamie Carragher í MNF í gærkvöldi.mynd/skjáskot
Fimm frá Chelsea

Lampard fór létt með það en hann valdi fimm úr sínu gamla liði, Chelsea, og kannski eðlilega þar sem það er með góða forystu á toppnum og er í heildina búið að vera besta liðið á leiktíðinni.

David De Gea, markvörður Manchester United, er í markinu og Tottenham-mennirnir Dele Alli og Harry Kane komust í liðið. Michael Keane, miðvörður Burnley, og Ryan Bertrand, bakvörður Southampton, eru einnig í liðinu.

Vissulega gott lið hjá Lampard og erfitt að færa rök fyrir því að nokkur leikmaður þarna eigi ekki skilið sæti í úrvalsliði tímabilsins. Við Íslendingar söknum þó Gylfa Þórs Sigurðssonar sem er nánast einn síns liðs, með smá hjálp frá Fernando Llorente, að bjarga Swansea frá falli. Ekki nóg með það þá er hann líka að bjarga ferðamannabransanum í borginni eins og Vísir fjallaði um í síðustu viku.

Lampard stillir upp fjögurra manna tígulmiðju og augljóslega heldur N'Golo Kante sæti sínu sem varnartengiliður en þá eru þrjár stöður sem Gylfi gæti tekið. Þær skipa Adam Lallana, Liverpool, Eden Hazard, Chelsea, og Dele Alli, Tottenham.

Adam Lallana hefur dregist aftur úr í baráttunni við Gylfa Þór.Vísir/Getty
Gylfi með bestu tölfræðina

Þessir þrír leikmenn eru í mun betri liðum að berjast um Englandsmeistaratitilinn og sæti í Meistaradeildinni á meðan Gylfi Þór berst við falldrauginn með Swansea. Tölfræðin er þó Gylfa í hag í baráttunni við þessa þrjá.

Lallana, Alli og Hazard eru allir sóknarsinnaðir miðjumenn eins og Gylfi en Hazard spilar vitaskuld mun framar en þeir allir og er í raun framherji. Samt sem áður hefur hann komið að færri mörkum en íslenski landsliðsmaðurinn.

Hazard er búinn að skora ellefu mörk og leggja upp fjögur. Hann hefur því komið með beinum hætti að fimmtán mörkum Chelsea eða 26 prósent þeirra 57 marka sem liðið er búið að skora á leið sinni að Englandsmeistaratitilinum.

Adam Lallana er með lægstu tölfræðina en hann hefur staðnað verulega undanfarnar vikur síðan hann og Gylfi voru að berjast um flest mörk sköpuð af miðjumönnum í deildinni. Lallana er búinn að skora sjö mörk og leggja upp önnur sjö og koma þannig með beinum hætti að fjórtán af 58 mörkum Liverpool eða 24 prósent.

Gylfi Þór skorar og/eða leggur upp nánast í hverjum leik.vísir/getty
Vonandi sjá menn ljósið

Dele Alli er aðeins fyrir ofan Lallana og Hazard. Hann er búinn að skora þrettán mörk af miðjunni hjá Tottenham sem er auðvitað ótrúlega vel gert enda frábær leikmaður. Dele er til viðbótar búinn að leggja upp fjögur mörk og koma þannig með beinum hætti að 17 af 53 mörkum Tottenham eða 32 prósent marka liðsins.

Þá er komið að Gylfa Þór Sigurðssyni. Með miklu slakari menn í kringum sig heldur en hinir þrír er Hafnfirðingurinn búinn að taka völdin í eigin hendur hjá velska liðinu. Gylfi er búinn að skora átta mörk og leggja upp tíu og koma þannig með beinum hætti að 18 af 35 mörkum Swansea-liðsins á tímabilinu.

Gylfi hefur því skorað eða lagt upp ríflega helming allra marka Swansea í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð eða 51 prósent. Ótrúleg tölfræði hjá frábærum leikmanni sem hlaut því miður ekki náð fyrir augum Franks Lampards að þessu sinni.

Nú er bara að vona að aðrir leikmenn deildarinnar sjái ljósið þegar að þeir fá atkvæðaseðilinn í hendurnar.


Tengdar fréttir

Gylfi deilir efsta sætinu yfir flestar stoðsendingar

Stoðsending Gylfa gegn Chelsea í gær þýðir að hann deilir efsta sæti yfir flestar stoðsendingar á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni en Gylfi hefur komið að helming marka Swansea á leiktíðinni.

Llorente fær Gylfa til þess að blómstra

Fernando Llorente hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undir stjórn Pauls Clement hjá Swansea. Hann vinnur einstaklega vel með Gylfa Sigurðssyni og saman hafa þeir skotið Swansea úr botnsætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×