Erlent

Langtímanotkun rafretta mjög hættulítil samkvæmt rannsókn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fyrsta langtímarannsóknin sýnir fram á litla hættu af langtímanotkun rafretta.
Fyrsta langtímarannsóknin sýnir fram á litla hættu af langtímanotkun rafretta. vísir/getty
Mun minna magn krabbameinsvaldandi efna og annarra skaðvalda fannst í líkömum fyrrverandi reykingafólks sem skipti yfir í rafrettur miðað við reykingamenn sem héldu sínu striki. Þetta kemur fram í fyrstu langtímarannsókninni á áhrifum rafretta.

Alls voru þátttakendur 181. Var þeim skipt í fimm hópa. Reykingafólk sem reykti eingöngu sígarettur, fólk sem notaði bæði sígarettur og rafrettur, fólk sem notaði sígarettur og nikótíngjafa aðra en rafrettur, fyrrverandi reykingafólk sem notaði eingöngu rafrettur og fyrrverandi reykingafólk sem notaði nikótíngjafa aðra en rafrettur.

Í niðurstöðu rannsóknarinnar segir: „Fyrrverandi reykingafólk sem hefur notað rafrettur til lengri tíma eða aðra nikótíngjafa tekur inn svipað magn nikótíns og reykingafólk. En fólk sem notar eingöngu rafrettur eða aðra nikótíngjafa innbyrðir mun minna magn krabbameinsvaldandi efna og annarra skaðvalda en reykingafólk.“

„Rannsóknin rennir stoðum undir fyrri rannsóknir sem sýna fram á að rafrettur og aðrir nikótíngjafar eru mun öruggari en sígarettur. Rannsóknin gefur til kynna að mjög lítil hætta fylgi langtímanotkun rafretta,“ sagði Lion Shahab, læknir og aðalhöfundur rannsóknarinnar. Fjallað er um rannsóknina á vef heilbrigðisþjónustu Bretlands (NHS) og voru niðurstöður birtar í vísindatímaritinu Annals of Internal­ Medicine. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×