Erlent

Börn Fillon talin tengjast spillingarmáli hans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Penelope og Francois Fillon.
Penelope og Francois Fillon. Vísir/afp
François Fillon, forsetaframbjóðandi franskra Repúblikana, liggur enn undir rannsókn vegna meintra spillingarmála tengd honum á meðan hann sat á þingi. Nú telja yfirvöld að börn hans hafi þegið þusundir evra frá föður sínum fyrir „lögfræðistörf“ sín.

Áður hefur verið greint frá því að kona Fillons, Penelope, hefði þegið hundruði þúsunda evra fyrir uppdiktuð störf sem aðstoðarkona Fillons. Ekki lítur út fyrir að hún hafi raunverulega unnið fyrir eiginmann sinn. Fillon segir fjölmiðla vera í herferð gegn sér, í þeim tilgangi að eyðileggja framboð hans.



Sjá einnig: Fillon ósáttur við fjölmiðla

Rannsakendur telja sig nú knúna til þess að athuga hvort að börn Fillon, þau Marie og Charles Fillon, hafi þegið greiðslur sem námu allt að 86 þúsund evrum, en þær greiðslur áttu að hafa verið fyrir sérstök verkefni tengd lögfræðiþjónustu.

Hvorugt þeirra hafði þó löggild réttindi sem lögfræðingar á þeim tíma og fengu þau hvort um sig greidd laun fyrir fullt starf, en ekki einungis fyrir þau verkefni sem þau eiga að hafa unnið að.

Lögreglan hyggst nú rannsaka málið til hlýtar og gerði hún meðal annars áhlaup í gær á skrifstofur þingsins, til þess að leita uppi skjöl sem sýna fram á að um raunveruleg störf hafi verið að ræða.

Fillon var áður talinn líklegur til þess að ná árangri í komandi forsetakosningum, en talið er að þessi mál skaði fylgi hans mjög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×