Íslenski boltinn

Robert Sandnes á leið í KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Robert Sandnes í leik með Selfossi árið 2012.
Robert Sandnes í leik með Selfossi árið 2012. vísir/vilhelm

Norski fótboltamaðurinn Robert Sandnes er á leið í KR og mun spila með liðinu í Pepsi-deild karla á komandi sumri, samkvæmt heimildum Vísis.

Sandnes hefur áður spilað hér á landi með Selfossi sumarið 2012 og Stjörnunni ári síðar. Hann féll með Selfyssingum árið 2012 en náði Evrópusæti árið 2013 með Stjörnunni og komst í bikarúrslitin sama ár þar sem Garðabæjarliðið tapaði fyrir Fram í vítaspyrnukeppni.

Í heildina spilaði Sandnes, sem getur bæði spilað sem vinstri bakvörður og á kantinum, 42 leiki í deild og bikar á tveimur tímabilum og skoraði tvö mörk.

Hann fór frá Stjörnunni til Start í Noregi þar sem hann hefur spilað í úrvalsdeildinni undanfarin þrjú tímabil. Hann spilaði 22 leiki af 30 í deildinni fyrir Start á síðustu leiktíð, þar af átta sem byrjunarliðsmaður. Start endaði lang neðst og féll.

Sandnes verður þriðji leikmaðurinn sem KR-ingar fá til sín eftir að síðasta tímabili lauk en áður eru komnir bakvörðurinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson frá Breiðabliki og framherjinn Garðar Jóhannsson frá Fylki. Farnir eru Hólmbert Aron Friðjónsson í Stjörnuna og Jeppe Hansen í Keflavík.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.