Enski boltinn

Gylfi Þór þriðji í vali fólksins á leikmanni mánaðarins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola ræðir við Gylfa Þór eftir leikinn gegn Manchester City um helgina.
Pep Guardiola ræðir við Gylfa Þór eftir leikinn gegn Manchester City um helgina. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea og íslenska landsliðsins í fótbolta, var þriðji í vali fólksins á leikmanni mánaðars í ensku úrvalsdeildinni. Þetta kemur fram á Sky Sports.

Hann barðist um nafnbótina við Tom Davies, 18 ára gamlan leikmann Everton, enska landsliðsmanninn Dele Alli hjá Tottenham, Peter Crouch, framherja Stoke, Alexis Sánchez, leikmann Arsenal og Harry Kane, framherja Tottenham.

Ríflega 58.000 atkvæði bárust í netkosninguna og vann Tom litli Davies með yfirburðum. Hann fékk 25.045 atkvæði en næstur kom Dele Alli með 12.560 atkvæði.

Gylfi Þór, sem hefur verið sjóðheitur fyrir Swansea að undanförnu, varð þriðji í kosningunni en 7.977 atkvæðu féllu í skaut Hafnfirðingsins sem skoraði tvö sigurmörk og lagði upp önnur tvö mörk í janúar fyrir Swansea.

Peter Crouch kom næstur á eftir Gylfa Þór með 6.124 atkvæði, Alexis Sánchez fékk 4.957 atkvæði og í sjötta sæti af þeim sex sem komu til greina var Harry Kane með 1.817 atkvæði.

Þessi atkvæði gilda tíu prósent í opinberri kosningu ensku úrvalsdeildarinnar á leikmanni mánaðarins. Gylfi Þór er eini Íslendingurinn sem hlotið hefur þá nafnbót og er hann tilnefndur aftur núna.


Tengdar fréttir

Gylfi skoraði í sjötta mánuðinum í röð

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í gær í fyrsta leik Swansea í febrúarmánuði og hann hefur þar með skorað í sex mánuðum í röð í ensku úrvalsdeildinni en því hefur enginn annar íslenskur knattspyrnumaður náð í þessari skemmtilegustu deild í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×