Enski boltinn

Hjörvar: Get alveg séð Tottenham kyngja stoltinu og reyna að fá Gylfa aftur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er í sjöunda sæti yfir þá leikmenn sem skapa flest af mörkum í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur skorað átta og lagt upp sjö fyrir Swansea. Hann hefur því með beinum hætti komið að fimmtán af 29 mörkum Swansea eða ríflega helmingi marka liðsins.

Gylfi trónir á toppnum yfir miðjumenn á þessum sama lista en fyrir ofan hann eru bara framherjar og flestir hjá stórum liðum eins og Alexis Sánchez hjá Arsenal, Diego Costa hjá Chelsea og Zlatan Ibrahimovic hjá Manchester United.

„Það er erfiðara að leggja upp og skora mörk í svona döpru liði heldur en að spila á kantinum hjá Arsenal til dæmis,“ sagði Bjarni Guðjónsson í Messunni á Stöð 2 Sport HD

„Leiðtogahæfileikar hans eru líka miklir og hann er farinn að taka meira til sín. Á móti Southampton lét hann Narsingh þvílíkt heyra það þegar hann missti boltann aftarlega á vellinum,“ sagði Hjörvar Hafliðason.

Spurning barst frá áhorfanda sem vildi vita hvort Gylfi gæti spilað fyrir eitt af sex bestu liðunum og hvort hann myndi sjálfur vilja það.

„Hann á að gera það og hann getur það. Ef Gylfi fær tækifæri mun hann gera það því hann hefur svo sannarlega hæfileikana til þess. Ef hann fær alvöru tækifæri og nokkra leiki getur hann staðið sig í stóru liðunum,“ sagði Bjarni Guðjónsson.

„Ég get alveg séð Tottenham kyngja stoltinu og reyna að fá Gylfa aftur,“ sagði Hjörvar Hafliðason.

Allt innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×